Vond skoðun 10: Að gera Ísland að lýðræði!

Lýðræði eða lýðveldi

 

Íslenska þýðingin á Republic og Democracy er að mínu mati ekki sú besta; íslensku orðin eru of lík, á meðan hugtökin eru mjög ólík.

Lýðveldi (Republic) þýðir einungis að ríkisvaldið sé í höndunum almennings (að einhverju leyti) sem velja fulltrúa sína í ríkisstjórn landsins í gegnum atkvæðagreiðslur.

Lýðræði (Democracy) er hins vegar þar sem ríkisvaldið er í jöfnum höndum almennings sem velja fulltrúa sína í gegnu atkvæðagreiðslu og fulltrúar þeirra lúta áframhaldandi aðhaldi.

Lýðveldi þarf ekki að hafa jafnan atkvæðisrétt, sem er hins vegar undirstaða lýðræðis.

Þarna er reginmunur á.  T.d. getu land verið Lýðveldi, en bannað konum og stjórnarandstæðingum að kjósa eða bjóða fram til kosninga.  Íran, Kína og Norður Kórea eru lýðveldi, en það þarf gott ímyndunarafl að halda því fram að þau séu lýðræðisríki.

Síðasta vonda skoðunin sem ég ætla að bera fram er sú að Ísland eigi að vera lýðræðisveldi.

 

Kosningaréttur

Lýðræði býður upp á jafnan kosningarétt óháð kyni, efnahag, trú, kynþætti eða búsetu. (PÚNKTUR)  Allir hafa jafnan kosningarétt og atkvæði þeirra ALLRA vega að jöfnu.

Ísland uppfyllir ekki kröfuna um jafnan atkvæðisrétt.  Konur mega kjósa, og sama má segja um þá sem ekki hlíta hinni Lúther Evangelísku trú.  Hins vegar fer atkvæðaréttur manna á Íslandi eftir búsetu (og þar af leiðandi stjórnmálaskoðunum af einhverju leyti).  Borgarbúum á Höfuðborgarsvæðinu er þar mismunað en landsbyggðafólk hefur mun meiri atkvæðavægi en borgarbúar.

Allir stjórnálaflokkar landsins eru með “jöfnun” kosningaréttar að stefnumáli fyrir hverjar þingkosningar.  Hins vegar hefur þessi “jöfnun” aldrei tekist.  Kjósendum er trúað fyrir því að það sé svo ofboðslega erfitt að gefa þeim hverjum eitt atkvæði.  Réttindi sem þeir ættu að hafa óvévíkjanlega.  Ég kýs ekki að nota orðið að “jafna” kosningaréttinn, þar sem þarf ekki að jafna þann rétt landsmanna að hafa eitt atkvæði hver. 

Ein besta aðferðin á Íslandi er að gera allt landið að einu kjördæmi.  Þá geta einstaklingar og flokkar boðið fram á landsvísu eða eftir héröðum eins og þeir kjósa.  Þeir frambjóðendur með flest atkvæði fara á þing.

Önnur aðferð væri að skipta landinu í hreyfanleg kjördæmi þar sem fjöldi íbúa ákveður mörk kjördæmanna.  Einfalt mál í tölvuvæddum nútímanum.

 

Lýðræði þarf einnig aðhald.

Kosningaréttur er þó ekki það eina sem gerir land að lýðræðisríki.  Skipting valdsins sem fulltrúar kjósenda fá í sínar hendur skiptir þar einnig sköpum.  Það að kjósa einræðisherra yfir sig á einhverjum ára fresti gerir ríkið ekki að lýðræði.  Ástæða þessa er einföld; vald krefst aðhalds.  Ef allt vald ríkisins er gefið til sömu einstaklingana, þá er mikil hætta á að valdið sé misnotað, og að réttindi ríkisborgarana minnki þar af leiðandi.

Vald spillir, algjört vald spillir algjörlega.  Þetta er lögmál sem lýðræði er ekkert ónæmari fyrir en önnur stjórnarmyndun.  Lýðræðiskerfi þurfa því aðhald. 

Í þingbundnum konungsríkjum er aðhaldið í höndum konungs.    Þing og dómsstólar landsins starfa í umboði Konungsvaldsins og þurfa að svara til þess.  Konungsríki eru í raun einræðisríki með lýðræðislega undanþágu; hálflýðræðisríki

Í lýðræðisríkjum er þetta aðhald Konungs ekki til staðar.  Þó svo að segja megi að aðhaldið sé falið í kosningavaldi ríkisborgarana á 4-5 ára fresti, þá sýnir sagan að slíkt er aldrei nóg.  Hægt er að umturna landinu og aftaka öll lýðræðisréttindi á styttri tíma en það.  Sagan sýnir að slíkt gerist oft án þess að almenningur geri sér fulla grein fyrir því þegar það á sér stað.  Auðvelt er líka að snúa kosningum frá raunverulegum og málefnalegum efnum yfir í eitthvað annað, t.d. framkomu stjórnmálamanna eða minniháttar málefni.

Lausnin á aðhaldi fulltrúavaldsins var eitt megin mál lýðræðisins sem feður endurreisnarinnar leystu á sínum tíma.  Lausnin fellst í að skipta upp valdssviðum landsins og gefa ótengdum fulltrúarhópum ríkisins yfirstjórn hvers valdssviðs.  Þessi valdssvið eru:

 

Löggjafarvaldið – þeir sem búa til og skrifa lögnin, þetta er yfirleitt í höndunum á þingum ríkisins

Framkvæmdarvaldið – þeir sem stýra og ákvarða framkvæmdir landsins innan lagaramma þess, þetta vald er yfirleitt í höndunum á ríkisstjórn landsins.

Dómsvaldið – þeir sem dæma í málum þegna ríkissins.  Þetta vald er yfirleitt í höndunum á dómsstólum landsins með hæstarétt sem æðstu fulltrúa þessa valds.

 

Aðskilnaður þessa valdssviða er gert á mismunandi hátt:  Löggjafa og Framkvæmdavaldið eru kosin í aðskyldum almennum kosningum.  Löggjafavaldið er sett með þingkosningum, en framkvæmdavaldið valið með ríkisstjórnar- eða forsetakosningum.  Dómsvaldið er aðeins erfiðara, þar sem viss þekking og menntun þarf að vera þar við hendi hjá kandídötum.  Í Bandaríkjunum eru hæstaréttardómarar valdir af Forsetanum (sem hefur framkvæmdavaldið með í höndum), en þeir þurfa að vera staðfestir í embætti af þinginu.  Bæði þessi valdssvið þurfa því að vera sammála um val dómarana.

Í Ítalíu er kýs þingið 1/3, ríkisstjórnin 1/3 og dómarar sjálfir 1/3 af dómurum “Corte costituzionale della Repubblica Italiana”.

Ef íslenska lýðveldiskerfið er skoðað þá sést mjög fljótlega að þessi aðskilnaður valdssviða á sér í raun ekki stað.  Aðgangur almennings að stjórn landsins er einungis í gegnum kosningar til þings og er þeim aðgangi mismunað eftir búsetu fólks.  Val á framkvæmdar- og dómsvaldi er síðan í höndunum á þeim hópi þingmanna sem geta myndað meirihluta á þingi.  Almenningur hefur þar engan ákvörðunarrétt.

Forsetaembættið er síðan hið eina embættið sem almenningur hefur rétt og tækifæri til að velja beint, óháð búsetu, en embættið hefur hvorki framkvæmda-, dóms- né lýðræðisvald með höndum.  Samkvæmt stjórnarskránni setur Forseti ríkisstjórn í embætti og ætti þar af leiðandi að vera yfir framkvæmdarvaldinu, en hefðin hefur gert það að verkum að embættið er frekar til skrauts en raunverulegt vald. 

Forsetaembætti Íslands er afskaplega skrítið embætti í lýðræðisríki.  Þetta kerfi á sér sögulega skýringu, en það má setja rök fyrir því að stofnun lýðveldisins í miðju stríðinu hafi verið gert í flyti.  Lýðveldiskerfið var í raun bein kópía á Þingbundnu Konungsveldi þar sem Konungnum er skipt út fyrir Forseta.  Ísland er því í raun Konungsríki með kosinn Konung.  Slíkt er í raun ekki fjarstætt, þar sem Germönsku þjóðflokkar fornaldar höfðu slíkt kerfi kosina Konunga líkt og Tacitus segir í bók sinni um Germaníu.

Síðasta vonda skoðunin sem ég set hér fram er því þessi;  Að Íslandi verði breytt í lýðræðisríki með eftirtöldum aðferðum:

  1. Það er grundvallar atriði að í lýðræðisríki sé einn maður með eitt atkvæði, án tillits til kyns, kynþátts, kynhegðun, efnahags, búsetu, háralits, eða gáfna.  Á jafn litlu landi eins og Íslandi er þetta lítið mál. 
  2. Aðskilnaður Framkvæmda-, löggjafar- og dómsvalds er algjörlega nauðsynleg til að hafa stjórn á hegðun stjórnmálamanna.  Kjósa þarf til þings og ríkisstjórnar í aðskyldum kosningum, og halda þeim valdssviðum aðskyldum að öðru leiti.  Þingmenn mega ekki sitja valdastöðu í framkvæmdavaldinu.  Dómsvaldið skal valið af þinginu og þarf staðfestingu framkvæmdarvaldsins til.  Þetta er kerfi sem önnur lýðræðisvöld vinna eftir og ætti ekki að vera ofar getu Íslendinga.
  3. Íslenska þjóðin á að hafa vald til að stofna til þjóðaratkvæða vegna einstakra mála og að geta rekið stjórnmálamenn og embættismenn sína ef slíkt á við.  Fyrirmæli einfalds hluta þjóðarinnar ætti að vera nóg til að fyrirskipa kosningar um þessi einstæðu mál.  Ef þetta hefði verið við lýði á síðustu árum væru Íslendingar t.d. ekki í hópi ofbeldisaðila í Írak.

Þetta eru einfaldar en stórtækar breytingar.  Það er ekkert því til fyrirstöðu, hvorki í uppsetningu né framkvæmd, að þessar breytingar séu teknar upp af ríkinu, en það er ólíklegt enda “vond skoðun” í augum valdhafa.

Þar með endar þessi röð vondra skoðana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband