Færsluflokkur: Menning og listir
14.7.2007 | 10:42
Hvaðan kemur Ísland?
Ég er einn þeirra sem hef litla trú á sögunni fyrir aftan nafnið á gamla Fróni. Sagan segir að maður að nafni Flóki Vilgerðarson hafi haldið til landsins, og fundið það með not þriggja hrafna. Flóki gekk á fjall í Vatnsfirði og sá þaðan hafís í Arnarfirði. Hann nefndi því landið Ísland. Þetta hljómar mun frekar sem Þjóðsaga en heimild, og eru margar ástæður fyrir því. Norrænir menn notuðu ekki fugla sem siglingatæki og er sagan skyldari t.d. sögu Nóaflóðsins og fleiri slíkum flóðsögum, en siglingasögu norræns manns. Flóki kom frá Vesturströnd Noregs, og var ekkert ókunnur snjó eða ís, hafís hefði ekki átt að koma honum á óvart. Siglingatækni Norðmanna þróaðist við siglingaverslun upp og niður strendur Noregs, mun norðar og kaldara en Ísland. Á þessum tíma var meðal hitastig á Íslandi svipað eins og það hefur verið á landinu síðustu ár, en kólnaði síðar og náði lágmarki á síð miðöldum, og síðan aftur á 19du öld. Ekki hefur verið stór vandamál með hafís í Arnarfirði síðustu árin, og því ekki líklegt þá, þó slíkt sé ekki algjörlega ólíklegt. Aðrir gætu þó hafa skýrt landið. Grænland er annað nafn sem er einkennilegt, og segir sagan að Eiríkur hafi nefnt landið Grænland sem einhverslags túristaáróðri. Sem er einnig frekar ólíklegt. Aftur er það ólíklegt að maður frá norrænu landsslagi nefni ísi þakið landið grænt. Ein hugmynd um nafnið er að það hafi afbakast og í raun verið kallað Grundland (þ.e. jarðvegs land). Þegar Danir fóru að nýlenduvæða Grænland kom í ljós að Inúítar sjálfir nefndu svæði fyrrum Norrænna manna Grænland. Það er rökrænt að fólk sem býr á ísi þöktu landi allt árið kalli eina græna blettinn á því landi Grænland. Ekki er ólíklegt að norrænir menn hafi lært nafnið af innfæddum, þó það fylgi ekki sögunni. Fornleifarannsóknir í Grænlandi og Kanada sýna að Norrænir menn og Inúítar stunduðu verslun, og þar af leiðandi önnur samskipti. Á Íslandi bjuggu keltneskir menn þegar fyrstu norrænu mennirnir komu til landsins. Samkvæmt sögunni voru þetta Írskir munkar (þó eru margir sem segja að búseta hafi verið víðtækari, en engar fornleifar hafa fundist því til sönnunar). Írskir einsetumenn, eða munkar, eru þekkt fyrirbrigði á afskektum eyjum í kringum Bretlandseyjar og því ekki ólíklegt að þeir hafi gert hið sama á Íslandi. Þeir voru erfingjar hefðar sem átti rætur sínar að rekja til Drúída. En Drúídar gerðust smátt og smátt kristnir og tóku samfélög einsetumanna þeirra trúna oft í einu lagi og urðu að Munkaklaustri yfir nótt. Síðustu sagnir um tilveru drúída á Bretlandseyjum eru frá um 7du öld. Ekki er ólíklegt að þessir Keltnesku einsetumenn hafi nefnt landið Ísland, enda mun kaldara á Fróni en á landssvæðum Bretlands eyja. Það eru þó aðrar og ekki ólíklegri hugmyndir um uppruna nafnsins. Íslendingar í gegnum aldirnar, voru mun líklegri til að kenna sig við nágrenni sitt, en að hafa hugmynd um samheild landsins í heild; fólk var frekar t.d. Vestfirðing eða Frá Sléttu en Íslendingar. Meðferð annara landa á nafninu er því alveg jafn mikilvægt heimild og meðferð Íslendinga. Ísland er kallað Island í flestum þeim ríkjum sem höfðu samskipti við landið. Auðvelt er að leggja rök fyrir því að um sé að ræða frosið vatn í Skandinavískum tungum, en í latneskum löndum er nafn landsins ekki þýtt yfir á heimatunguna, þó svo að slíkt sé gert við önnur lönd með lýsingu í nafninu. Eina tungan sem þýðir nafnið er Engilsaxneska, en Iceland er víst seinni tíma orð í þeirri tungu. Ein hugmyndin er að nafnið sé mun eldra en heimildir segja frá og að nafn landsins komi frá Isis, Egypskri gyðju sem dýrkuð var um alla Evrópu á fornöld. Gyðjan er náttúrugyðja og nafn landsins Island þýddi því Land Gyðjunnar, eða land Guðanna. Önnur hugmynd er að nafnið komi frá keltneskum þjóðflokki sem nefndist Iceni (c-ið hér er borið fram eins og s) frá svæði sem nú heitir Norfolk í Norðaustur Bretlandi. Þjóðflokkur þessi hóf mikla uppreisn gegn Rómverjum á fyrstu öld eftir Krist, og töpuðu stórkostlega. Þjóðflokkurinn flúði eftir það undan Rómverjum og hvarf algjörlega úr sögunni. Það er ekki óhugsandi að leifar þjóðflokksin hafi fundið leið til Íslands og að nafnið sé dregið af nafni þjóðflokksins. Ice-leanbh myndi útleggjast sem börn Icean þjóðflokksins. Þetta eru einungis mismunandi hugmyndir um uppruna nafnsins, og ég tel í raun enga þeirra líklegri eða ólíklegri en viðurkennda hugmyndin um Hrafna-Flóka. Það væri gaman að heyra fleiri hugmyndir og tilgátur um uppruna nafnsins.