Vond Skoðun 7: Landsbyggðastefnan er vitleysa

Í sögubókum sem ég las á barnaskólaárum mínum voru Danir úthúðaðir fyrir hin ýmsu illvirki í garð Íslendinga.  Eitt þeirra illvirkja var búfesta sem sett var á landann og gerði það að mörkum að menn voru settir í ætthaga fjötra.  Þessi lög kváðu á um að skyldu fólks að eiga lögheimili á einhverjum bóndabænum, annars lá við því fangavist.  Segja má að fátt annað hafi komið í veg fyrir bæjarmyndun og framfarir á Íslandi fyrr á öldum en þessi lög.  Að ótöldu framgangi á þeim iðnaði og handverki sem fylgdi farandverkamönnum (eða flökkufólki eins og það var nefnt).

Það var ekki fyrr en síða að ég komst að því að það voru ekki Danir, heldur Íslenskir bændur sem kröfðust og viðhéldu þessu kerfi, aðalega til að hafa til handana ódýrt vinnuafl.  Þessi búfesta var liður í baráttu bændastéttarinnar gegn bæjarmyndun, sem í þeirra augum myndi leiða til tekju- og valdamissis stéttarinnar.  Þessi barátta entist reyndar lengi, og var stofnun Framsóknarflokksins liður í baráttu bændastéttarinnar gegn “flutningnum á mölina”.  Framsókn stóð upphaflega fyrir “Framsókn Til Sveita”, en baráttan gekk upp á að snúa við flutningi fólks til þéttbýlisins og vísa því til sveita á ný.

Íslendingar voru því seinir og lengi að koma sér upp þéttbýli.  Glæta slíkra búhátta hófst í kringum Biskupsstólana og að einhverju leiti aðalsból á miðöldum, og einnig má setja rök fyrir því að verslunarstaðir og þing hafi verið tímabundin þéttbýli allt frá landnámi.  Þessir þéttbýlisstaðir tóku þó seint eða aldrei við sér, sem þakka má andstöðu Íslendinga við þeirri þróun.  Raunveruleg þéttbýlismyndun hófst því ekki af alvöru fyrr en á 17du öld (þó með mjög hægum breytingum).  Flestir bæjir á Íslandi eru því mjög ungir ef miðað er við bæjarfélög í Evrópu t.d.  En það voru útlendingar sem hófu í alvöru þéttbýlisvæðngu á Íslandi.  Danir mynduðu stjórnunar og verslunarstaða en aðrir hófu hval og fiskiðnað í landi til að vinna hráefni sem þeir veiddu við Íslandsstrendur.

Sgísliáuppsölumegja má að bylting hafi síðan orðið í búsetu Íslendinga á einni öld.  Síldariðnaðurinn, saltfiskurinn og annar fiskiðnaður iðnvæddi landið á nokkrum áratugum, og á örskömmum tíma var meirihlutur Íslendinga búsettur í þéttbýli en ekki sveitum.  Iðnvæðing sveita, sem á öðrum stöðum tók við starfi hjá mannaflinu sem flutti til bæja, var seint að koma til Íslands, og það er í raun ekki fyrr en á allra síðustu áratugum að landbúnaður hefur hafið raunverulega iðnvæðingu.

Þéttbýli mynduðust áður en landbúnaður hófst.  Elstu borgir í heiminum eru m.a. ónefnd borg neðansjáfar undan Gujarat í Cambay flóa, Indlandi, sem er frá því um 7500 FKR, Jeríkó líklega fyrir 9000 FKR,  Damaskus milli 8-10000 FK og Çatalhöyük í Tyrklandi frá því um 7000 FKR.  Það sem þessar og fleiri borgir eiga sameiginlegt er að þær eru byggðar áður en landbúnaður kemur til sögunar.  Landbúnaður hófst í Egyptalandi í kringum 8000 FK og breiddist þaðan út hægt og bítandi.  Það voru í raun veiðimenn og safnarar sem byggðu fyrstu þéttbýlisstaðina.  Nýjustu kenningar mannfræðinga segja að Þéttbýli hafi skapað Landbúnað, en ekki öfugt.  Landbúnaður var þróaður sem afleiðing og stoð við þéttbýli.

Íslenskur landbúnaður var einnig stoð við þéttbýli en þéttbýlið var bara ekki á Íslandi, heldur fyrst í Noregi og síðar í Danmörku.

Með þróun iðnvæðingar og tæknivæðingar síðustu ára hafa smábæjir og þorp orðið undir á sama hátt og sveitabæir urðu áður.  Atvinnutækifærin sem voru  í þéttbýli og ullu fyrri búsetuflutningum, eru ekki fyrir hendi þar lengur.  Í dag eru tækifærin og atvinnusköpunin í stærri þéttbýli.  Þetta er ekki einsdæmi á Íslandi, heldur eru öll lönd í heiminum að glíma við sömu þróunina.  Árið 2007 bjó meirihluti mannkynsins í borgum í fyrsta skipti í sögunni.

Skipulag IslandsVegna upphaflegrar andúðar og mótstöðu við smærri þéttbýlisstaði á Íslandi, þá tókst þeim ekki vel að skapa þann fjölbreyttleika í framleiðslu og efnahag og er til staðar í mörgum svipuðum stöðum erlendis.  Sem þýðir að þeir eiga núna erfiðara með að aðlagast breyttum aðstæðum þegar einhæfur, en ekki svæðisbundnir, atvinnuvegurinn fór annað.  Samskonar aðstæður urðu í Wales í Bretlandi t.d. við fráhvarf kolaiðnaðarins.  Bæir með staðbundnum og sérstæðum iðnaði (ostagerð t.d.) og þeir bæjir sem hafa mjög fjölbreyttan iðnað og menningarlíf hefur tekist betur að aðlagast breyttum aðstæðum.

Þegar það varð ljóst að smærri bæjarfélög á Íslandi áttu í erfiðleikum með að halda í, og laða að, íbúa, setti ríkisstjórn landsins af stað stefnu sem snúa átti þeirri þróun við.  “Framsókn til Þorpa”, væri hægt að kalla þá stefnu.  Ástæður og lausn þessarar búflutninga voru rannsakaðir og stefnumörkun sett.  En stefnumörkunin, líkt og svo margt annað á Íslandi, tók ekki mark á rannsóknunum og niðurstöðum þeirra.  Rannsóknarmenn mældu með að þau smærri bæjarfélög sem best stóðu ættu að hljóta hjálp sem fælist í að skapa meira fjölbreytni í menningar og atvinnulífi á staðnum.  Með því væri hægt að leiða flæði fólks úr smábæjunum og í þessa færri, en betur stæða staði.  Stærri þéttbýli myndu þá þróast á tilteknum afmörkuðum stöðum á landinu.  Þeir staðir sem mælt var með voru Ísafjörður, Akureyri og Egilsstaðir.

Því miður var ekki tekið mark á meðmælunum, og stjórnmálamennirnir (sem flestir komu frá smærri þéttbýlum eða sveitum) gátu ekki sætt sig við að annað þéttbýli en sitt eigið fengi stuðninginn.  Niðurstaða þessa varð sú að stuðningurinn varð niðurvatnaður og ómarkviss.  Allir fengu eitthvað, en enginn fékk nóg.  Bryggjur, sundlaugar og Íþróttahús voru byggð alstaðar, og göng boruð eftir atkvæðum en ekki nyt.  Útkoman var að fólksflutningurinn hélt áfram óáreyttur, og allur til eina stóra þéttbýlissvæðisins á Íslandi; Reykjavíkur.  Öllum þeim gífurlegu fjármunum og orku sem eytt hefur verið í þetta verkefni hafa verið til einskis.  Stofnunin sem sett var á fót til að lána til nýsköpunar í atvinnuvegum landsbyggðarinnar hefur tapað öllu því fé.  Þungaiðnaður sem nú er draumalausnin,  verður líklega til einskis, því nútíma fólk vill ekki vinna í þungaiðnaði.  Man einhver eftir laxarækt, eða loðdýrarækt, öðrum “reddingum” valdhafana?

Sjá má hvernig stjórnmálamenn hafa verið að missa tökin á stefnuleysi sínu í málfari valdhafana.  Nú er málið að kenna einhverjum um “vandamálið”.  Ekki geta valdhafar tekið ábyrgðina, svo lausnin er að kenna Höfuðborginni um.  Hér áður var það siðleysið á mölinni sem dró sveitafólkið frá heimabyggðum, nú skal kenna borginni um “vanda” landsbyggðarinnar.  Höfuðborgarbúar eru Grýlan á landsbyggðinni.  Styrkur og tækifæri á Höfuðborgarsvæðinu, menning þess og íbúar hafa verið gerðir að óvininum.  Landsbyggðin er í “samkeppni” við höfuðborgina, og krefst þess að staðan sé jöfnuð í þeirri samkeppni.   Höfuðborgarbúar mega ekki hafa skoðun á landsbyggðinni, þeir skylja hana ekki, eða eru að reyna að koma á “ójafnvægi” í þessari “samkeppni”.   Þeir sem græða eru síðan þeir sem koma illindunum af stað í byrjun: Landsbyggðarþingmenn.  Niðurstaðan er að Landsbyggðin hefur fleiri atkvæði á hvern mann en Höfuðborgarbúar, margfallt meira fé í samgöngubætur, og samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu þurfa  í raun margfalda réttlætingu miðað við samgöngubætur á landsbyggðinni, og svona mætti lengi telja.

Í raun er þetta merki um uppgjöf.  Bæði stjórn og íbúar landsbyggðarinnar gera sér það ljóst djúpt niðri að þessi barátta er töpuð, þessi eðlilega þróun í búsetu er þegar búin að gerast. 

Fórnarlömb þessarar baráttu eru fjöldi fólks í smáum þéttbýlisstöðum sem fast er í húsnæði sem ekki selst, fólk í ætthagafjötrum.  Svo langt er gengið í slíkum búfjötrum að valdhafinn eyðir margfallt meiri fjármagni í að viðhalda byggð í smáum þéttbýlum, en að það tæki að byggja ný húsnæði fyrir alla  íbúana í stærri byggðalögum.

Þessir búsetuflutningar eru eðlilegir og ekki einstæðir.  Breytingar á búsetuformi eru linnulausir í gegnum söguna, og er þekkt fyrirbrigði í nútímanum.

Spurningunum sem enginn hefur svarað enn er “Villt þú búsetu á landinu öllu” og “hvaða rökræna ástæða liggur þar að baki”.  Svörin við því munu gefa lausnina.

Ef svarið er rómanstískt;  Já, landið er ljótt/ekki það sama/ eyðimörk ef það er ekki allt byggt.  Þá þarf að spyrja sig hve mikið við erum til í að eyða í rómantíska hugsjón, og þá hvernig.  Er landið leiksvið?

Ef svarið er byggt á ferðamannaiðnaði:  Já, það þarf þjónustu við ferðamenn vilja fara um land.  Þá þarf að gera  ferðamannaiðnaði auðveldara fyrir.  Ferðamannaiðnaðurinn stendur yfirleitt í um 3 mánuði yfir sumarið, sem þýðir 9 mánuði þar sem ekkert gerist.  Við breytum ekki veðrinu og ekki er hægt að halda óendanlega uppi pylsusjoppum um allt land.  Á að skylda Íslendinga í Íslenskt vertarfrí?  Húsavík hefur spurt sig þessa og eru með eitt svar.

Ef svarið er að fólk vill einfaldlega búa úti á landi, þá er grundvallar spurning að spyrja hvort það sé skylda ríkisins að kosta og halda uppi fólki sem kýs að búa þar sem því sýnist.  Samkvæmt jafnræði í stjórnarskránni skal öllum gert jafnt undir höfuð.  Er það þá t.d. í höndum ríkisins að styrja einhvern sem vill búa neðansjávar? Uppi á Jökli? Eða úti í Geim?  Hefur einhver sem ekki hefur efni á að búa í miðborg Reykjavíkur rétt á að ríkið sjái til þess að hann geti það?

Aðal spurningin er þó hvað myndi gerast ef allir þessir styrkir, í einu formi og öður, yrðu afnumdir.  Engin þróunarlán, nýjar brýr og göng þyrftu að uppfylla sömu notkunarskilmála og í Höfuðborginni, engin iðnaður búinn til af valdhöfum, engir framleiðslustyrkir, flutningsstyrkir eða skattaafsláttur.  M.ö.o. að láta hlutina þróast sjálfsstætt.  Án efa myndu einhver bæjarfélög leggjast í auðn.  Sömuleiðins einhver bændabýli (já alla styrki).  En það er langt í frá að allir myndu flytja til Reykjavíkur eða allri staðir muni leggjast í auðn.  Landsbyggðarfólk sér ekki allt Reykjavík í hyllingum, og það er ekki alltént laust við að geta dottið í hug lífsviðurværi sem gefur þeim kleift að búa úti á landi.  Farið á Húsavík ef þið eruð efins.  Sannleikurinn er líka sá að þeim sterkari sem stærri Þéttbýlin eru, þeim stærri eru áhrifasvæði þeirra.  Svæði þar sem byggð blómstrar.  Stór þéttbýli eru ekki óvinurinn, þau eru ein af lausnunum.

Hver veit, kannski verður næsta búsetubylting á þá leið að fólk flytur í smærri þéttbýli.  En þangað til, er ekki gáfulegra að nota orku og fjármuni almennings í eitthvað annað en að viðhalda ósjálfbærri búsetu?

Hver sem ástæðan er og hver sem niðurstaða er, þá þarf lausninni að vera sjálfbærri.  Að styrkja eitthvað sem mun aldrei geta staðið undir sér leysir ekkert.  Þá er betra að láta eðlilega þróun um lausnina.  Búfesta í hvaða mynd sem er, á að vera liðin tíð.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband