17.8.2007 | 20:23
Vond skoðun 8: Að vera aðhlynntur refsingu glæpamanna
Í eina tíð var fólki refsað fyrir glæpsamleg og andsamfélagsleg athæfi. En nú er tíðin önnur, Í dag má ekki refsa neinum, endurhæfing er stikkorðið í refsikerfi nútímans.
Refsing fylgdi glæpum, þeim verri sem glæpurinn er, þeim verri er refsingin. þessi formúla var sú sama í öllum mannlegum þjóðfélögum allt þar til nú á síðari tímum þar sem refsing við glæpum eru séð eins og einhverslags barbarismi fortíðarinnar. Þessa gömlu formúlu lærðu menn áður fyrr allt frá barnæsku. Börn lærðu á reinslunni hvar mörkin á milli rétts og rangs lágu, misstigum var refsað af fullorðnum með hörðum orðum, heftingu á frelsi eða í verstu tilfellum kinnhest eða rassskell. Ef utanaðkomandi aðilar urðu fyrir ódæði barna ætlaðist samfélagið til þess að foreldrar refsuðu börnum sínum fyrir þá hegðun líkt og hegðun sína heimavið. Foreldrar tóku uppeldis hlutverk sitt alvarlega. Í dag má ekki refsa börnum, þau eru ekki látin bera nokkra ábyrgð á hegðun sinni. Allt er þeim leyfilegt. Afleiðingar þessa er að börn læra engin takmörk á hegðun sinni. Það er síðan einkennilegt að fólk verið hissa á að hegðun barna fari versnandi.
Í dómskerfi byggðu á refsingu fer magn refsingar fór eftir magni ódæðisins. Refsingarnar voru gerðar í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi til að vernda samfélagði með því að fjarlægja ódæðismenn, og í öðru lagi til að vera viðvörun til þeirra sem líklegir eru til samskonar ódæðisverka. Þau lönd sem hafa sem þyngstu refsingu í dag eru að sama skapi með fæsta glæpi. Síngapúr og Sádí-Arabía beita dauðadómum, líkamsmeiðingum og löngum og ströngum fangavistum gagnvart glæpamönnum og uppskera óvenjulega lága glæpatíðni.
Refsing er núna bannyrði, en í staðinn hefur Félagsfræði- og Sálfræðistéttin barist fyrir því síðustu áratugina að breyta ímynd glæpamanna. Þeir sem fremja glæpi eru nú ógæfumenn fremur en misyndismenn. Þeir fremja glæpi ekki vegna eigin ákvarðanatöku heldur vegna þess að þeir eru sálfræðilega veikir eða vegna þess að samfélagið braut á þeim á einhvern hátt, einhvern tíman. Glæpamenn eru því fórnarlömb. Af þessum ástæðum skal refsikerfið ekki refsa þeim fyrir misgerðir sínar, heldur á það að reyna að skilja ástæðu misgerðanna og hjálpa ógæfumönnunum að yfirstíga erfiðleikana sem stuðluðu að glæpunum. Nú skal endurhæfa en ekki refsa.
Þessi umbreyting á glæpamönnum í fórnarlömb er enn eitt form Pólitískrar Rétthugsunar, þar sem þeir sem séðir eru sem valdalitlir (fangar, glæpamenn) eru rétthærri en þeir sem séðir eru sem valdhafar (samfélagið, dómskerfið).
Svo langt er komið í mörgum Vestrænum ríkjum að glæpamenn eru betur settir, hljóta meiri hjálp og hærri fjárhagsstuðning en fórnarlömb þeirra. Fórnarlömbunum er því í raun refsað aftur. Gott dæmi um þetta eru nauðgarar, sem þrátt fyrir alvarlegan glæp eru teiknaðir sem fórnarlömb og síðan sleppt með fremur vægar refsingar. Ástæða glæpsins er sett á herðar fórnarlambsins, sem klæddi sig eða hegðaði á rangan hátt, sálfræðiástands gerandans, eða ógæfu í fortíð hans. Fórnarlambinu er þar með nauðgað aftur, í þetta sinnið af Pólitískt Rétthugsandi Dómskerfinu.
Rökhyggjan liggur með refsingunni. Mannskepnan bjó til samfélagið og setti lög og reglur þess til að vernda sig gagnvart öðrum einstaklingum og hópum. Í algjörlega anarktísku samfélagi er enginn óhultur gagnvart græðgi og fýsn náungans, og lögmálið um völd þess sterkasta gildir. Sjá t.d. Sómalíu. Mannskepnan lærði því að til þess að vernda sjálfan sig er valdið falið í fjöldanum. Margir einstaklingar saman, sem lifa eftir settum samfélagreglum, eru sterkari sem heild gagnvart einstaklingum, eða öðrum hópum, sem girnast líf eða eignir samfélagsins. Lög og reglur er límið sem heldur samfélaginu saman og meðlimir samfélagsins læra reglur þess á uppvaxtarárum sínum. Börn eru sífelt að prófa hvar mörkin liggja á réttu og röngu, hvað má og hvað má ekki, og samfélagið kennir þeim reglur sínar með því að refsa þeim þegar þau stíga yfir mörkin. Með því að upplifa ávinning og áhættur lærir fólk þannig að fylgja settum reglum Samfélagsins. En þessi lærdómur heldur síðan áfram á fullorðinsárin. Fullorðið fólk metum í sífellu áhættur og aðlagar hegðun sína eftir því mati, hvort sem það er lög og reglur, eða eitthvað annað. Við göngum yfir götur á rauðu ljósi eftir að hafa metið það að við komumst yfir án skaða. Við keyrum aðeins yfir hámarkshraða því við metum það svo að áhættan á sekt sé frekar lítil.
Ofbeldisseggir í Miðborg Reykjavíkur stunda ofbeldi því það uppfyllir valdanautn þeirra. Þeir meta það svo að áhættan á refsingu sé lítil miðað við nautnina sem þeir fá út úr því að upplifa vald sitt með ofbeldi á saklausu fólki. Eiginleg lögreglugæsla er nánast enginn í Miðborginni, og ef svo ólíklega vill til að þeir eru handteknir, þá er refsingin væg eða engin.
Viðbrögð hinnar Pólitískt Rétthugsandi Lögreglu Reykjavíkur við miðborgarofbeldinu er dæmigerð í þessu sambandi. Fundin er ábyrgð hjá samfélaginu fyrir ofbeldinu en ekki ofbeldiseggjunum. Hjá Lögreglu Reykjavíkur er ástæða ofbeldisins sú að samfélagið veitir þessum ógæfumönnum vín á skemmtistöðum, sem einnig eru opnir það lengi að þessir óheillamenn fara ósjálfrátt að stunda ofbeldisverk vegna ofurölvunar. Refsa beri því samfélaginu með því að banna langan opnunartíma skemmtistaða og banna almenning að drekka vínveitingar utanhúss, jafnvel á rólegum dögum á sólríku sumri.
Þessi niðurbrot á reglum samfélagsins hrykkir í stoðum þess. Ef samfélagið getur ekki veitt einstaklingum þess þá vernd sem þeir ætlast til af því, þá munu einstaklingar á endanum sjá sjálfir um vernd sína, annaðhvort í öðrum samfélögum eða sem einstaklingar. Upphaf þessa sést nú þegar í Íslensku samfélagi: Öryggisvarnarbúnaður og þjónusta hefur aldrei verið vinsælli, vopnaburður aldrei verið meiri, og nú er planið hjá vel efnuðum Íslendingum að koma sér upp heimilum innan afgirts öryggissvæðis afskorið frá hinu almenna samfélagi. Upplausn Rómaríkis leiddi til lögleysu sem skapaði síðan innmúruð borgarríki. Mannskepnan virðist lítið hafa lært af sögunni.
Lausnin á glæpum er virk löggæsla og raunveruleg, hörð refsing. Stuttar sumarleyfis-búðir glæpamanna aftrar engum frá ákvörðunum um að brjóta af sér. Lögreglumenn með bakhlutann límdan í sæti lögreglubíla og öryggismyndavélaskrifstofustóla eru ekki að taka á glæpamönnum. Og til hvers ættu þeir að hreyfa á sér óæðri endann? Ef þessir sömu glæpamenn komast sífellt undan refsingu fyrir Dómstólum landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Refsing kemur ekki að gagni í einu einasta tilviki.
Myndirðu berja barn fyrir að hella niður mjólk?
Afbrotamaðurinn, hver sem hann er, fremur sinn glæp með skilningi barnsins.
Honum á að leiðbeina (agi) en ekki refsa.
Guðmundur Þórarinsson (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 00:49
Börn og fullorðnir læra aga á umbun og refsingu. Ef einungis er um umbun að ræða, lærir fólk aldrei neitt.
Upprétti Apinn, 20.8.2007 kl. 16:49
Fólk (og þá sérstaklega börn) læra mest af fordæmi. Og ef fordæmið er að það megi berja þau læra þau að þau megi berja aðra. Og að það sé í lagi að þau séu barin. Sem kennir lágt sjálfsálit, sem leiðir af sér lélega framistöðu í skólakerfinu, sem leiðir af sér að þeim finnst þau vera utangarðs, sem leiðir af sér að þau sjá ekki ástæðu til að haga sér eftir reglum sem settar eru af samfélagi sem samþykkja þau ekki. Er framhaldið ekki augljóst?
Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.