Vond skoðun 9: Að hata ekki Ameríku

Í þjóðfélagi þar sem skoðun Pólitískrar Rétthugsunar er ráðandi: það að þeir sem hafa valdið hafi alltaf rangt fyrir sér gagnvart lítilmanganum, eru Bandaríki Norður Ameríku persónugervingur illskunnar.  Allt sem kemur frá Ameríku er vont og allt sem þeir gera er gert til að viðhalda eða sýna hrokafullt vald sitt.  Ameríkanar eru allir feitir og vitlausir, og hafa ekkert vit á heiminum eða heimsmálunum.  Þeir vita ekki einu sinn hvar Ísland er, og jafnvel ekki að það sé til.

Hér áður fyrr var þetta hatur á Bandaríkjunum kirfilega bundið við Marxíska Kommúnista í þeirri pólitísku pólskiptingu sem réði Evrópu á Kaldastríðsárunum.  En í gegnum Pólitíska Rétthugsun hefur Marxismanum tekist að breiða þessa skoðun út í víðara samfélagið. 

Bandaríkin eru Stórveldi, og það er ekki að ósekju að 20sta öldin er kölluð Ameríska öldin.  Við upphaf aldarinnar voru Bretar stærsta heimsveldi jarðarinnar. ( Í raun voru Bretar stærsta heimsveldið sem nokkurn tímann hefur verið uppi, bæði í landsvæði, hernaðarmætti og viðskiptum).  En í gegnum tvær Heimstyrjaldir misstu Bretar allt veldi sitt, en upp risu Bandaríkin sem sterkasta heimsveldi jarðarinnar.  Sovétríkin í gegnum kommúnismann héldur uppi samkeppni við Bandaríkin fram undir öldinni, en sannleikurinn var þó sá að í hernaðar- og efnahagsmætti komust þeir aldrei nálægt styrk Bandaríkjanna.  Eftir að Sovétríkin liðu undir lok og Kaldastríðinu lauk urðu Bandaríkin óvéfengjanlega eina stórveldið í heiminum. 

Ríki verða heimsveldi vegna þess að á einn eða annan hátt hafa þau náð yfirráðum yfir stórum  landsvæðum og mannfjölda.  Þessi yfirráð geta verið bein líkt og útbreiðsla Rússa til Síberíu og Asíu, eða óbein líkt og áhrifassvæði Bandaríkjamanna og Sovétanna í Evrópu á sínum tíma.  Þau geta líka verið einhverstaðar þarna á milli líkt og yfirráð Breta yfir Indlandi og fleiri stöðum.  Yfirráðin þurfa ekki alltaf að koma til með ofbeldi heldur geta þau orðið til í gegnum diplómatíu, viðskipti eða jafnvel þjóðernis-, trúar- eða samfélag-samskennd (sjá útbreiðslu Prússa t.d.)

Það sem Heimsveldi eiga flest sameiginlegt er að vald þeirra er miðstjórnað, annaðhvort í gegnum einvald og ráðgjafa hans, eða samhnýttan og fámennan valdahring.  Við slíkar aðstæður býr fólk ekki við veldi lagana, heldur duttlungum fárra ráðamanna.

Bandaríkin skera sig í raun mjög úr sem heimsveldi.  Ólíkt því sem flestir halda þá á sér stað raunveruleg og langvarandi togstreita innan Bandaríkjanna um það hvort Bandaríkin eigi að nýta sér vald sitt og áhrif utan landsins, eða hvort þeir eigi að vera einangraðir og huga einungis að innanríkismálum og viðhalda öruggum landamærum.  Afleiðingar þessa eru þær að Bandaríkjamenn í gegnum söguna hafa forðast langverandi landvinninga, en kjósa frekar snögga hernaðaríhlutun en nota síðan diplóma og efahagsáhrif til að hafa áhrif á stjórnir annara ríkja.  Ef herir BNA og/eða vinveittir þjóðhöfðingjar liggja undir langvarandi örðugleikum hafa Bandaríkjamenn ávalt yfirgefið átakasvæðin.  Bandaríkin eru lýðræðisríki og langvarandi átök utan ríkisins eru líklegri til að setja einangrunarsinna á valdastóla.

Fyrir bæði Fyrra- og Seinna Stríð réðu einangrunarsinnar ríkisstjórnum Bandaríkjanna, en það var utanaðkomandi áhrif og áróður sem fékk Bandaríkin til að taka þátt í stríðunum.  Þátttaka BNA í Fyrri Heimsstyrjöldinni kom að miklu leiti frá skuld sem Bandaríkjamönnum fannst þeir eiga Frökkum að gjalda, en Frakkar börðust með Bandaríkjamönnum í Frelsisstríðinu gegn Bretum.  Það var síðan endalaus áróður (aðalega) Churchills sem dró Bandaríkjamenn inn í Seinni Heimsstyrjöldina.  Í dag er talið að Bandaríski forsetinn hafði haft vitneskju um árásaráætlanir Japana, en gerði ekkert í því þar sem hann vildi snúa áliti þingsins og almannaáliti til þátttöku í Stríðinu í Evrópu.

Bandaríkin eru eins og áður er sagt Lýðræðisríki, þar sem málfrelsi er verndað og valdssvið hafa virkt og viðhaldið aðhald.  Framkvæmda- Dóms- og Löggjafarvaldið er aðskilið, og hefur hvert þeirra vald til að rannsaka og dæma í málum hvers annars.  Stundum er lítið um þetta aðhald, enda kemur fyrir að sömu flokkarnir eru ráðandi í öllu valdssviðinu, en á fjögurra ára fresti getur það breyst.  Í dag er t.d. Bandaríkjaforseti talinn nokkuð einangraður þar sem Demókrataflokkurinn er með völdin á Löggjafarþingi landsins.

Á Íslandi er ekkert slíkt aðhald til staðar fyrir utan illa notað Forsetavaldið.  Það sama má segja um Bretland og flest önnur Evrópuríkin.

Bandaríkjamenn taka líka virkan þátt á andstöðu og áróðri á ríkisstjórn sína í opnum og áframhaldandi umræðum um innri og ytri stjórnmál landsins.  Michael Moore er Bandaríkjamaður.  Þessar pólitísku umræður eru mun frjálsari en jafnvel í Evrópu.  Engar slíkar umræður eru leyfðar í ríkjum eins og Kína, Rússlandi og Arabaríkjunum.  Indland kemur líklega næst þessu af upprennandi heimsveldum, en þjóðerniskennd og stéttaskipting þar kemur þó í veg fyrir opnari samskipti.

Bandaríkjamenn gera bíómyndir, bækur og sjónvarpsefni um rangar ákvarðanir í sambandi við Írak og vandamálin sem skapast hafa vegna þessa.  Ég hef ekki séð Evrópskar bíómyndir um vandamálin sem sköpuðust á Balkaskaga vegna mótþróa Evrópsku ríkisstjórnana við íhlutun í Bosníustríðinu þrátt fyrir  þjóðarmorðin sem þar voru stunduð.   Hvað þá gagnrýni á vilja Evrópuþjóða til að borga launsnargjöld til mannræningja, ákvörðun sem hefur bæði leitt fjármögnun hryðjuverkahópa og aukið áhættuna á mannránum til muna (sjá Afganistan, Írak og Lýbíu á síðustu mánuðum og árum).

Í víðara samhengi er hægt að spyrja hvenær einhver hafi síðast séð Evrópska bíómynd um pólitík eða pólitískar stofnanir Evrópusambandsins?

Úr nóg er að taka í Bandarískum bíómyndum og sjónvarpsefni um pólitík eða pólitískar stofnanir Bandaríkjanna?

Bandaríkjamenn reyna að beita áhrifum sínum til að safna til sín hráefni frá öðrum landssvæðum, bæði málmum og olíu.  Evrópubúar eru þar engir aukvissir og beita ekkert betri aðferðum.  Vegna þess hve hugmyndafræði upplýsingaaldarinnar er inngreipt í Bandaríkjamenn þá reyna þeir á sama tíma að breiða út lýðræði að einhverju leiti, en einnig er stuðningur þeirra við ríkisstjórnir byggðar á hegðun þeirra og oft á almannaáliti í Bandaríkjunum.  Kínverjar eru mest stækkandi innkaupandi á hráefni í heiminum í dag, og ólíkt Bandaríkjamönnum er þeim alveg sama hverslags harðstjórnir eru við líði í framleiðsluríkjunum.  Ekkert gekk í að leysa Darfur útrýmingarherferð Araba á kristnum Afríkubúum í Súdan á Alþjóðavetfangi vegna stuðnings Kína við Suddanísku ríkisstjórnina.  Zimbabwe er annað ríki með mikla harðstjórn sem hefur góð samskipti við og stuðning frá Kínverjum.  Jú Bandaríkjamenn styðja Sádí Araba (líkt og Evrópubúar gera) en það er í gangi umræða um þá stefnu í Bandaríkjumun, umræða sem heyrist lítið í Evrópu, um Evrópsk samskipti við harðstjórnir.  Hvaða kemur olía Íslendinga annars?

Bandarísk stórfyrirtæki stjórnast ekki af góðvild og kærleika heldur peningum.  Sama má segja um stórfyrirtæki annara ríkja.  Það stórfyrirtæki sem hefur versta orðspor mannréttinda- og umhverfisbrota samkvæmt mannréttindafélögum er fyrirtækið ELF frá Frakklandi.  Eru Íslensk stórfyrirtæki stjórnuð af einhverju öðru en peningum?

Bandaríkjamenn eru vissulega ekki allir mjóir og stæltir, en ekki eru Íslendingar það heldur, né Bretar eða Þjóðverjar.  Bandaríkjamenn éta rusl fæði, en það gera hinir líka.  Og hvað með útbreiðslu á ómenningu sinni?  Ef farið er til suðurhluta Evrópu þar sem Evrópskir túrhestar safnast saman er lítið af staðbundinni menningu eftir.  Veitingastaðir bjóða uppá Þýskan snitzel og Breskar pylsur og kartöflumús.  Bandaríkjamenn eru ekki þeir einu sem vilja fara til útlanda en búa eins og heima hjá sér.

Bandaríkjamenn eru ekki heimskir.  Ekkert land með alheimska íbúa getur orðið jafn valdamikið og Bandaríki Norður Ameríku.  Besti mælikvarði á gáfur eru líklega skrif í vísindatímarit og umsóknir um einkaleifi.  Bandaríkjamenn standa þar uppúr með höfuð og herðar.  Bandarískir háskólar eru alltaf í efstu sætum bestu háskóla heimsins.  Bandaríkjamenn eru vissulega misjafnir, og sumir vita ekkert um umheiminn utan bæjarins sem þeir búa í, og hafa ekkert ferðast né búið erlendis.  En það er fullt af slíku fólki utan Bandaríkjanna.  Davíð Oddson hafði aldrei búið utan Íslands þegar hann var Forsætisráðherra og sama má segja um flesta þingmenn og ráðherra landsins.  Það er til fullt af fólki á Íslandi og annarsstaðar sem hefur alla sína vitneskju um umheiminn úr sjónvarpinu.  Bandaríkjamenn gengu á tunglinu, fundu upp ljósaperuna, heimilistölvuna og nettengingar.  Þeir eru framsæknasta þjóðfélag veraldar og fáir komast nálægt uppfinningasemi þeirra og virðingu fyrir gáfum.  Í Bandaríkjunum eru byggðir skólar fyrir gáfaða nemendur, í Evrópu eru gáfaðir nemendur settir í sama bekk og látnir læra með sama hraða og heimskustu nemendurnir.

Bandarísk menning er ekki heldur öll byggð í kringum McDonalds.  Frá Bandaríkjunum komu Andy Warhold, Jackson Pollock, Louis Armstrong, Ernest Hemingway og Orson Welles til að nefna fáa.  Bandaríkjamenn fundu upp Jass, blús, gospel, rokk og popp.  Diskó, hip hop og bluegrass.  Þegar enginn vildi byggja móðern byggingar, tóku Bandaríkjamenn við þeim opnum örmum.  Arkitekt Bilbao safnsins er Bandaríkjamaður.  MOMA í New York er besta nýlistasafn í heiminum. 

Bandaríkjamenn gera einnig bestu bíómyndir og sjónvarpsefni í heiminum.  Bretar búa til “Eastenders” sjónvarpsþáttinn, Bandaríkjamenn gera “West Wing”.  Þetta á bæði við vinsældir og gæði þessa efnis.  Indverjar gera fleiri myndir, en Bandaríkjamenn gera þær betur.  Evrópumenn gera hvorki listfengnari eða gæðameiri myndir en Bandaríkjamenn.  Öll matarmenning heimsins finnst í Bandaríkjunum.  Það voru Evrópubúar sem fundu upp samlokur, pylsur, pizzur og hamborgara.  Kínverjar fundu upp Tómatsósuna, Frakkar Majónes.

Bandaríkin eru leiðandi afl Vesturlandana.  Menningar sem fylgir lýðræði, mannfrelsi, og stjórn lagana.  Hugmyndir sem eru af skornum skammti utan Vestræns menningasvæðis.  Bandaríkin, þrátt fyrir afl sitt og mátt viðhalda þessu stjórnmálakerfi upplýsingaaldarinnar og gera það vel.  Vissulega gera þeir misstök, enda er þeim stjórnað af manneskjum, eins og öll önnur ríki jarðar, en þeir reyna þó að byggja ákvarðanir sínar á lýðræðislegum forsendum.  Ekkert ríki er fullkomið, en Bandaríki Norður Ameríku eru lang frá því að vera eitt þeirra verri.

 

Og til að kanna vitneskju Íslendinga um umheiminn, án þess að leita það uppi, hvað getur þú sagt um landið Nýju Caledóníu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Api, mér finnst þú falla í þá gryfju að samsama þjóð elítunni sem stjórnar henni og einnig gefurðu þér að BNA sé lýðræðisríki þrátt fyrir að helmingur landsmanna nenni ekki á kjörstað til að kjósa fulltrúa þess sem í raun er einflokkur. Að minnsta kosti helmingur Bandar.manna er treg- eða tæknlega ólæs og massafjölmiðlar eru í eigu sömu aðila og reka olíu- hernaðar- lyfja- og peningamaskínunnar. Einnig kostar téð maskína stjórnmálamenn og núna er í Hvíta húsinu síkópatískur raðlygari á hennar vegum. Það er sem sagt stólað á trúgirni almennings bæði í BNA og annars staðar og teflt fram sjúklegum raðlygurum í því skyni. 

En Bandaríkin eru hrærigrautur öfga og andstæða. Þar er að finna mestu snillinga heimsins og líka verstu rugludallana. Það besta og líka það versta. En það þýðir ekkert að vera á stöðugum flótta með bandar. raðlygurum og síkópötum. Þú þarft virkilega að forðast bandar. massafjölmiðla og leita þér skárri heimilda.  

Baldur Fjölnisson, 24.8.2007 kl. 23:57

2 Smámynd: Upprétti Apinn

Það má segja að einkenni lýðræðis sé magbreytileiki skoðana þess.  Þar koma fram heimskulegar skoðanir, jafn mikið og gáfulegar.  "the price of freedom is eternal vigilance": ábyrgðartilfinning borgaranna er annað mál.  Í Ástralíu eru menn sektaðir ef þeir taka ekki þátt í kostningum landsins.  Ef þeir endurtaka áhugaleysi sitt, missa þeir borgararéttindi sín.  Ástralía er þar af leiðandi með eina mestu lýðræðisþáttöku í heiminum.  Kannski er hægt að segja að lýðræðislegt kerfi landsins og lýðræðisleg þáttaka lansmanna sé skilt en samt ólík fyrirbrigði.

Upprétti Apinn, 25.8.2007 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband