19.11.2007 | 19:44
FRELSI
Frelsi hefur verið í umræðunni undanfarið vegna áhuga sumra þingmanna á Íslandi að hefta málfrelsi kjósenda. Ég bendi sérstaklega á vef Polites (Hans Haraldssonar) hér hægramegin.
Margir virðast halda að frelsi sé það að mega gera hvað sem maður vill. Þetta kemur mér mikið á óvart og ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver skortur á grunn kennslu í vestrænni heimspeki í skólum landsins. Kannski auglýsingasölumenn hafi eyðilagt hugmynd almennings um Frelsi? Frelsi til að gera allt sem manni dettur í hug er ekki frelsi heldur anarkía. Ef menn mega gera það sem þá langar til, þá þýðir það að þeir mega hefta frelsi annara.
Frelsi, í vestrænni hugsun er frelsi til að gera það sem mönnun langar að gera, svo lengi sem það heftir ekki frelsi annara. Ef þú drepur mann, þá kemur þú endanlega í veg fyrir frelsi hans. Að stela frá öðrum eða meiða þá heftir frelsi þeirra til að hafa eignir sínar í friði og geta lifað lífi sínu án hræðslu við líkamsmeiðingar. Í vestrænu samfélagi er það síðan hlutverk hins opinbera að finna mörkin þar sem frelsissvipting hefst og setja reglur sem koma í veg fyrir hana
Málfrelsi er án efa mikilvægasta frelsi vestræns lýðræðis. Málfrelsið er víðasta frelsið, þar sem það á minnsta möguleikann á að hefta frelsi annara. Málfrelsið er sá staður þar sem menn skiptast á hugmyndum og skoðunum, þar sem nýjum hugmyndum er viðrar og vondar hugmyndir geldar með mótrökum. Málfrelsið er því ávalt fyrsta fórnarlamb alræðissins. Það er auðveldara að hefta allt annað frelsi þegar enginn getur mótmælt frelsissviptingunni. Allar takmarkanir málfrelsis hafa hafist til að bæta siðgæðisvitund samfélagsins. Það er síðan stutt skref í átt að alræði. Þeir sem vilja hefta almennt málfrelsi eru því hættulegustu einstaklingar lýðræðisþjóða.
Tek það fram að ég er ekki að mæla með ljúgvitnum eða persónuárásum í málfrelsinu, enda eru það ein af fáum sviður þar sem málfrelsið getur heft frelsi annara á beinan hátt.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.