16.12.2007 | 15:06
Femínistar í stríði
Enn og aftur er fólk lagst í skotgrafir yfir málefnaumræðu á Íslandi. Nú er það Femínismi. Fólk hefur skipst í tvær fylkingar, byssurnar hlaðnar, skotgrafir grafnar og nú skal gera út af við andstæðinginn. Hver sá sem er svo óheppinn að standa í einskinsmannslandi er fljótt skotinn líka, bara svona ef þeir skildu vera með óvininum.
Umræðan einkennist því enn aftur af tveim hópum sem reyna að hrópa hærra en hinn en gefa sér engan tíma til að hlusta á hvern annan. Enn og aftur mun því ekkert breytast.
Hvernig væri að breyta aðeins um og ræða málin af einhverri skinsemi án þess að úthýða hverju öðrum í skítkasti. Í hvorugum hópnum eru allir sammála öllu sem allir segja. Hugtakið Femínismi er ekki skilgreint eins hjá öllum, hvorki innan né utan raða femínista. Einstaklingar sem fylgja einhverri hugmyndafræði eru yfirleitt ekki á einu máli um skilgreininguna hugmyndafræðarinnar. Sumir fylgjendur Femínismans líta á hann sem eingöngu jafnréttishugsjón, að kalrar og konur gangi jafnfætis í samfélaginu. Aðrir fylgjendur Femínismans líta hins vegar á þetta sem hreina baráttu kvenna fyrir meiri rétti í samfélaginu, óháð nokkru jafnrétti við karla. Það að stimpla alla Femínista sem fylgjandi öfgafullustu sjónarmiðum stefnunar kemur í veg fyrir nokkra samræður.
Andstæðingar Femínista þurfa einnig að skilja aðstæðurnar sem liggja að baki núverandi baráttuaðferðum þeirra. Jafnréttissinnar í hinu vestræna samfélagi eiga erfitt með að vekja athygli á málefnum sínum. Ef gerð yrði skoðanakönnun um það þá myndu líklega flestir telja að jafnrétti sé sjálfssagt og í raun þegar áunnið, eða rétt um svo að verða algjörlega áunnið. En er það alveg rétt?
Launamunur kynjanna er ennþá fyrir hendi ef litið er á heild samfélagsins. En það er jafn rangt að fullyrða að það sé einungis vegna einhverrar innbyggðrar andstöðu við kvennólk og að segja að það sé einungis vegna ákvarðana sem kvenfólk tekur í lífi sínu.
Það er vissulega satt að störf þar sem konur eru í meirihluta yfirleitt lægra borguð en önnur störf. Störf sem byggjast á umönnun og samfélagsgreinum eru illa borguð en vinsæl meðal kvenna. Ef við gefum okkur að ekki verði tekin upp alræðistiburðir í atvinnulífinu og karlar og konur verði neydd í jöfn hlutföll í starfsgreinum, skilur það samt eftir eina spurningu vert er að spurja: hverju mjúku störfin (umönnun o.fl.) séu sjálfkrafa verr borguð en hörðu störfin?
Konur eru líklegri til að taka sér tíma frá starfi vegna barna sinna en karlar, og erfitt að eiga við það, staðreyndin er að mæður eru líffræðilega tengdari börnum sínum en feður. Á t.d. að neyða feður í orlof og veikindafrí? Það hefur að ég held verið gert í Svíþjóð.
En ástæðurnar eru ekki allar líffræðilegar eða bundið starfsstéttum. Ég hef persónulega komst að því að tvær mjög hæfar vinkonur mínar sem unnu sem yfirmenn í stóru fyrirtæki í Reykjavík voru á lægri launum en karlmennirnir sem unnu undir þeim. Þetta fyrirtæki notaði leynilaun og árleg starfsmannaviðtöl til að ákvarða launamat á starfsmönnum sínum frekar en raunverulegt mat á hæfni og stöðu þeirra. Ég er ekki viss um að það hafi verið hrein ákvörðun um að halda kvenfólkinu í fyrirtækinu á lægri launum en hins vegar eru karlmenn aggressívari en konur, og þetta leynilauna/viðtala fyrirkomulag hampar þeim sem eru að eðlisfari agressívari. Hver sem ástæða launamunsins er, þá er þetta verðugt umræðuefni í þjóðfélaginu og hefur alls ekki verið fullkomlega leyst.
En í nútíma heimi stórfréttamennsku eru svona málefni lítill fréttamatur. Þau eru talin frekar leiðinleg og selja lítið í fréttaiðnaðinum. Vissir femínistar hafa því valið þá leið að velja baráttuefni sem líklegri eru til að vekja athygli og um leið spinna þau upp í umræðunni. Ég leifi mér þó að efast um að margt þar sé málefninu til framdráttar. Aðdróttanir um alvarleg lögbrot án nokkurra sönnunar lítur frekar út eins og tilraun til að nota kynlíf til að selja skoðanir. Er einhver munur á fólki sem notar klám til að selja hugmyndir og þeim sem selja klám beint? Femínistar hafa réttilega bent á að kynlíf meðal barna og unglinga hefur stóraukist og sýn þeirra á kynlíf hefur breyst. Þetta er mjög alvarlegt mál sem þarf að takast á við. Femínistar eiga hrós skilið fyrir að vekja athygli á þessu máli, en að tengja þetta algjörlega og eingöngu við stöðu kvenna er hættulegt og getur gert illt verra.
Notkun vissra Femínista á afbakaðari tölfræði máli sínu til stuðnings er ekki jafn gæfusamur. Eins og Mark Twain sagði þá er til þrenns konar lygar: Lygi, Bölvuð Lygi og Tölfræði. Það verður seint málefninu til framdráttar ef trúverðugleiki þess hverfur út af tölfræði.
Sú gryfja sem sumir femínistar falla í er að setja upp kynjagleraugun og sjá allt í samfélaginu út frá kvenréttindabaráttu. Þetta er alltaf hættuleg hegðun í hvaða hugmyndafræði sem er og veldur togstreitu. Málið er nefnilega að þegar gengið er út frá því að ALLT í samfélaginu sé byggt á baráttu um einhverja hugmyndafræði er auðvelt að sjá skrattann alstaðar. Þar gildir einu hvort það eru gleraugu Femínista, Kommúnista, Kynþáttafordóma eða aðrar hugmyndir. Ef allt og allir eru dæmdir og dregnir í dilka eftir þessari fyrirframákveðnu hugmyndarfræði þá er ómögulegt að hafa opna umræðu um hlutina og málefnið sem barist er fyrir kemst ekkert áfram. Skotgrafahernaður er nefnilega þannig að aðgerðaleysi er besta hertæknin. Allir sitja í holum sínum á endanum og víglínan hreyfist ekkert.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.1.2009 kl. 11:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.