22.12.2007 | 11:22
Lögformlegt Varnarskipulag Íslendinga
Þegar Íslendingar taka endanlega ákvörðun um að hefja eigin varnarstefnu muni landið geta með sanni kallast sjálfsstætt ríki. Varnarmálastefna þarf ekki endilega að þýða stofnun Íslensks landgönguliðs, varnarstefna felur hins vegar í sér að Íslendingar taka eigin ákvörðun og ábyrgð á vörnum sínum. Varnarstefna getur verið allt frá ákvörðun um að stunda landvarnir algjörlega að eigin rammleik til ákvörðunar um að leggja alla slíka ábyrgð á varnarmátt annara þjóða, og allt þar á milli. Traust á varnarmátt og vilja annara þjóða þýðir ekki að Íslendingar loki algjörlega augunum fyrir varnarmálum en allt krefst þetta fyrirframákveðinnar og formlegrar uppsetningar.
Það sem um er að ræða með eigin varnarstefnu er fyrst of fremst lagalegt form varnarfyrirkomulags landsins og um leið lagalegur grundvöllur hernaðar til varnar landinu og fyrir Íslands hönd erlendis.
Varnarmál fela í sér hugtakið her. Her er frekar ljótt orð í munni Íslendinga, sem fæstir hafa mikinn skilning á slíku, en hægt er að kalla það Þjóðvarðlið, Varðlið, Varnarlið, Öryggislið eða eitthvað annað, og er slíkt gert annarsstaðar. Ég mun hér kalla þetta her og skilgreini það sem liðsafli sem starfar að vörnum ríkisins gagnvar innan eða utanaðkomandi ógn eða heldur til átaka fyrir Íslenska ríkið erlendis. Hvort sem það er í hlutverki vopnaðs afls eða í stuðningshlutverki við vopnað vald. Í nútíma herjum er að mestu 1/3 hluti herja það sem kallast tennur (teeth arms) herja, það er að segja þeir sem raunverulega berjast í stríðsátökum. Nú þegar starfa Íslenskir ríkisborgarar í störfum sem teljast til varnar- og hernaðarstarfa. Þar telst t.d. Sumar skyldur Landhelgigæslunnar, Ratsjáreftirlitið og Friðargæslulið Íslendinga m.a. Spurningin sem menn þyrftu að byrja að velta fyrir sér er undir hvaða lagaramma þetta fólk starfar? Ef þetta fólk starfar innan NATÓ, Friðargæslu Sameinuðu Þjóðanna eða annara Bandalaga, hvaða lög ná yfir það?
Það er mikilvægt að skilgreina hvað heitir undir varnarstörf og hvað ekki til að geta aðgreint þau störf frá almennum opinberum störfum. Ástæðan þess er að vegna þeirra aðstæðna og starfa sem ætlast er til að hermenn vinni eru herir ekki lýðræðisleg fyrirbrigði og geta athafnir þess stangast á við lög og reglur almennings.
Sem dæmi er fólki sem starfar innan herja er skylt að hlíða skipunum yfirboðara sinna innan vissra afmarkaðra reglna. Óhlýðni getur endað með fangelsisdómi. Þó er hlýðni innan þeirra marka að hermenn mega ekki hlýða skipunum sem ganga gegn settum herlögum eða alþjóða sáttmálum eins og Gefnarsáttmálunum. Yfirmenn geta skipað undirmönnum að gera hluti sem eru mjög líklegir að valda dauða eða limlesningu undirmannana án þess að hljóta refsingu fyrir slíkt. Hermenn mega meiða eða drepa óvinahermenn. Herir geta tekið óvinahermenn fanga og haldið þeim föngum án dóms og laga á meðan á stríðsrekstri stendur. Þessi dæmi og mörg fleiri hafa ekki stoð í almennum lögum lýðræðisríkja. Ég tek þó fram að ég er ekki að segja að hermenn fylgi ekki almennum lögum landsins, þvert á móti, en þeir þurfa þó að vinna í skilyrðum sem fylgja öðrum lögmálum.
Þörfin fyrir þessar reglur eru alveg jafn mikilvæg ef allur varnamáttur Íslendinga er erlendur, Íslenskur eða eitthvað þar á milli. T.d. þyrfti að skilgreina hvaða reglum og hvaða stjórn erlendir herir fylgja þegar þeir starfa á Íslandi í friðar eða ófriðartímum.
Blöndun Íslenskra og erlendra varnarstarfa krefst enn frekari skýringar á þessu. Gefum okkur það dæmi að Ísland dragist inn í hernaðarátök. Íslenskur ríkisborgari sem starfar innan ratsjárdeildar undir yfirstjórn Bandaríkjamanna slær yfirmann sinn þar sem hann reif kjaft og neitar að mæta aftur til starfa. Fer hann fyrir Bandarískan Herrétt sem líklegur yrði til að dæma hann í langan fangelsisdóm, eða er honum á engan hátt skilt að stunda vinnu sína eða fylgja skipunum erlendra yfirmanna í hernaðarástandi og fær sekt samkvæmt Íslenskur hegningarlögum?
Það fyrsta sem nokkur Varnarstefna á Íslandi þarf að gera er að setja niður skýrar reglur og lög um þessi mál. Hvað telst til Varnarmála, hvað eru hernaðarstörf og hvaða reglum stjórna þeim störfum? Ná ein lög yfir Íslendinga sem starfa að varnarmálum og önnur lög yfir erlenda hermenn? Hefur Íslenska ríkið eitthvað vald yfir erlendum herjum sem starfa að varnarmálum á Íslandi? Þetta þarf að auki að vera mjög einfallt og skýrt. Það síðasta sem menn þurfa á að halda í neyðarástandi er ruglingur á fyrirskipunum eða ábyrgð. Sú rannsókn sem nú fer fram á varnarmálum landsins þarf að byrja á að setja fram:
- Hver hefur rétt til að taka ákvarðanir og síðan gefa út fyrirskipanir til varnarliðsins og hverjar eru boðleiðirnar?
- Hvert er þar af leiðandi skipurit varnarmála á Íslandi?
- Hvaða störf teljast til varnarstarfa? Þetta þarf að vera skýrt og störf sem ekki eru varnarstörf eru þar af leiðandi utan varnarmáttar landsins og hafa ekki þjónustu eða stjórnunarhlutverk á neyðartímum?
- Hvaða lög og reglur ná yfir varnarlið á Íslandi á friðartímum annarsvegar og á átakatímum hins vegar?
- Hvað er réttur og skyldur Íslendinga sem starfa að vörnum landsins, og hvað er réttur og skyldur erlendra herja sem starfa að vörnum landsins?
Nú getur vel verið að Íslendingar hafi erft lagabókstaf Dana þegar kemur að þessum málum og að það eina sem þurfi sé að uppfæra hann. En þetta er að mínu mati mikilvægasta ákvörðunin í uppsetningu sjálfstæðrar varnastefnu, hver sem sú stefna verður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.1.2008 kl. 09:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.