2.1.2008 | 20:22
Ákjósanlegar landsvarnir
Eins og ég hef komið að hér áður þá er Ísland í engu frábrugðið öðrum löndum varðandi sögulega eða hugsanlega utanaðkomandi hernaðarlega hættu. Ísland hefur þjást vegna beins eða óbeins hernaðar í gegnum alla sögu sína og heimurinn hefur ekki orðið öruggari eftir lok Kalda Stríðsins, þvert á móti. Í dag eru meiri átök í heiminum en voru á tímum Kaldastríðsins og það eru frekar líkur á aukningu þess en minnkum. Einangrun landsins er að sama skapi minni en nokkurn tíman fyrr bæði vegna tækniframfara í farkostum og einnig aukinnar meðvitunnar alþjóðar um landið. Þarfir á skipulögðum vörnum fyrir landið er því mikilvægara en nokkru sinni fyrr. En spurningin er hvernig best sé að haga þeim vörnum?
Í bók sinni Um Stríð segir Clausewitch að það til séu tvenns kyns stríðsátök og byggir munur þeirra á markmiðum þeirra. Hið fyrra sé að nota hernaðarmátt til að nema landssvæði og hið seinna sé að lama hernaðarmátt óvinarríkisins svo að hann geti ekki barist með önnur markmið en landnám í huga. Í fyrri stríðsátökunum endar stríðið með samningum, en í seinni átökunum sé það algjörlega sigurvegarans að fyrirskipa endalokin. Þessi hugmyndafræðilega skipting getur gefið að einhverju leiti hugmynd um hvernig vörnum landsins ætti að haga.
Lega og stærð landsins er bæði gæfa og böl þess. Mannfæð á landinu gerir það að verkum að það hefur ekki mikinn alþjóða mátt, sem gerir það frekar ósýnilegt. En það gerir það einnig að verkum að landið hefur lítinn mátt til meiriháttar hernaðar. Lega þess gerir allar innrásir erfiðar, en ekki ómögulegar, en legan gerir einnig alla hernaðarlega hjálp frá vinátturíkjum landsins ennþá erfiðari ef innrásarlið hefur náð fótfestu. Mannfæð og einangrun eykur einnig áhættu fyrir almenna borgara, sérstaklega í aðstæðum þar sem óvinir stefnir einfaldlega að fjöldamorðum.
Sögulega séð er hægt að segja að ísland hafi átt á einn eða annan hátt 4 óvinaþjóðir. Fyrst Noreg (eða réttara sagt Noregskonung) sem ásældist völd yfir landinu. Þar á eftir Danmörk sem drottnaði yfir því oft með hörðum höndunum, Bretland sem stóð í baráttu yfir auðlindum sjáfarins í kringum landið allt frá miðöldum þar til 1976. Bretland hertók einnig landið árið 1940. Síðasta óvinaland Íslands var svo Bandaríkin sem tóku yfir hernám lansins af Bretum. Hér er talað þó ekki verið að tala um hatur milli fólk, enda allt annar hlutur. Bretar og Bandaríkjamenn á stríðsárunum voru séð sem vinir Íslendinga, en það breytir ekki sögunni. Allt eru þetta lönd sem við teljum nú næstu vinátturíki okkar, en hafa sögulega stundað aðgerðir sem teljast óvinveittar þjóðinni eða ríkinu. Aðgerðir Noregs og Danmerkur teljast hrein landvinningastríð og sama má segja um aðgerðir Breta og Bandaríkjamanna í Seinni Heimstyrjöldinni. Blóðugustu hernaðaraðgerðir urðu þó í landvinninga-styrjöldum sem geisuðu milli Íslendinga á fyrstu öldum þjóðarinnar, svo Íslendingar eiga sjálfir metið í hernaðarbrölti hér. Blóðugustu aðgerðir af erlendu afli gegn Íslendingum voru árásir Ottómanskra sjóræningja á landið. Þær voru óvæntar og höfðu ekki landvinninga sem markmið. Þær árásir komu frá heimsveldi sem Íslendingar höfðu engin samskipti við, hvorki góð né ill.
Með tilvísun í Clausewitch er hægt að setja bæði sögulega og hugsanlega áhættu í samhengi.
· Landvinningastríð:
o Stórar hernaðaraðgerðir af lofti, landi og legi sem krefðust enn stærri hernaðarmáttar til að verjast þeim.
· Stríð gegn mætti landsins:
o Smærri og stuttar aðgerðir sem krefjast snöggra viðbragða léttsvopnaðs mannafla
o Meðal stórar aðgerðir sem krefjast langvarandi aðgerða léttvopnaðs mannafla og stuttar aðgerðir loft og landhers.
Vegna mannfæðar hafa Íslendingar ekkert bolmagn í meiriháttar varnar- eða hernaðaraðgerðir. En þeir hafa getu til að sjá um eigið öryggi þegar kemur að smærri, afmörkuðum, áhættum og aðgerðum. Íslendingar gætu varist hryðjuverkaárásum eða árásum sérbúins landgönguliðs. Íslendingar hafa aftur á móti ekkert bolmagn til að halda uppi vörnum gegn meiriháttar innrásum sem fælu í sér herskip og orrustu flugvélar. Fyrir slíka atburði þyrftu Íslendingar á stuðningi vinátturíkja sinna að halda.
Undirbúningur hernaðaraðgerða til að berjast á móti meiriháttar innrás í landið tekur vikur og mánuði. Þeim stærri sem aðgerðirnar eru, þeim lengri tekur skipulag þeirra. Af þessum ástæðum hafa herir og samtök eins og NATÓ sett á fótinn hraðsveitir. Hersveitir sem geta mætt snöggt á átakasvæði og slegið niður átök í fæðingu, eða undirbúið innkomu stærri hers. Slíkar sveitir þurfa tvær vikur hið minnsta frá því að átökin byrja og þar til þeir geta mætt á átakasvæðin. Margt getur gerst á tveim vikum. Tímasetningin byggir einnig að miklu leiti á aðgangi hersveita að aðstæðum til lendingu fyrir flugvélar og skip. Þeim verri sem slíkar aðstæður eru, þeim lengri undirbúnings er kravist. Það er nefnilega ekki nóg að henda liði hermanna á landið, slíkt lið þarf mikla og stöðuga sendingu á vistum og búnaði, og þurfa því fyrst og fremst varðann lendingastað fyrir slíkt. Ef slíkur aðgangur er tryggður af landbundnu herliði eykst hraði og möguleikar vináttuþjóða að koma til hjálpar.
Niðurstaðan er að ákjósanlegustu landvarnir Íslendinga eru minniháttar Íslenskur hernaðarmáttur ásamt þátttöku í samtökum eins og NATÓ. Innan Íslenska hernaðarmættsins ætti að vera:
Viðvörunarstörf: Ratsjáreftirlit, Loft- og sjávareftirlit Landhelgisgæslu, upplýsingaöflun og greiningar áhættu og varnarmáttar.
Bein Varnarstörf: Varnarmáttur Landhelgisgæslu og landgönguliðs gegn minniháttar átökum. Trygging öryggis almennings í átökum eða hamförum og trygging skipa og flughafna í meiriháttar átökum eða hamförum.
Flugsveitir og floti yrðu til lítils gagns nema í meiriháttar átökum og enganveginn virði þeirra fjárfestingar sem til þyrfti til reksturs. Tímabundin staðsetning Orrustuflugvéla á landinu er óþörf. Óvinir geta einfaldlega mætt þegar slíkar þotur eru farnar eða notað aðrar aðferðir en flugsamgöngur til innrásar. Einnig er mjög auðvelt að taka orrustuflugvélar úr umferð ef flugvellir þeirra eru ekki varðir af landher. Flugvellir eru Arkílesarhæll orrustuflugvéla. Flugmenn og flugvélar eru mjög dýr hernaðarmáttur og við upphaf stríðsaðgerða myndu orrustuflugvélar í eigu erlends ríkis fara frá landi brott undir eins, enda engin ávinningur í að eyða slíkum útbúnaði í sjálfsmorðsátök.
Liðsafli:
Varnarlið með vel þjálfuðum og vel útbúnum landgönguliðssveitum sem hægt er að efla með liðsafla varaliðs þegar á þarf að halda. Landgönguliðið og búnaður þess þyrfti að hafa viðbúnað víða um land til að mynda djúpar varnir. Hluti þessa ætti að vera sérþjálfuð sveit sem stundar þau störf sem sérsveit lögreglu stundar nú. Þó meira bundin af ákvörðun ríkisstjórnar.
Landhelgisgæslan þyrfti einhvern efldan búnað en aðalega þjálfun il að geta þjónað grunn varnarþörf á hafinu ásamt því að stunda liðsflutninga og björgun og sjúkraflug á átakasvæðum.
Ratsjáreftirlitið héldi áfram með viðeigandi þjálfun.
Öryggisþjónusta sem þyrfti ekki að stunda njósnir, heldur sérfræðistofnun sem getur metið alþjóðlegt ástand og gefið ríkisstjórninni reglulega ráðgjöf um öryggisástand og varnarþörf landsins.
Yfirstjórn Varnarnála er nauðsynleg til að geta haldið uppi samhæfingu og skipulagi landvarna í hvaða formi sem það er. Eitthvað af störfum Almannavarna nú myndu falla undir þessa yfirstjórn.
Þjálfur og búnaður; Stærsti hluti varnarliðs allra landa eru þeir sem aðstoða bein hernaðarstörf með þjálfun, aðhlynning, flutning og vöruskipun. Ekkert varnarlið virkar án stuðnings.
Aðrir landbundnir varnamöguleikar;
Ef Íslendingar eru algjörlega á móti stofnun Íslenskra Landgöngusveita er einnig möguleiki á að stofna málaliða eða útlendingahersveitir t.d. í anda Frönsku Útlendingahersveitarinnar. En það mun þó setja stóra spurningu við hollustu þeirra líkt og með hollustu allra erlendra hersveita sem landið kysi að nota til varna landsins.
Hér hef ég talið þann varnarmátt sem talist gæti ákjósanlegur á landinu. Hver sem ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður í þeim efnunum er óvíst. Þó er öruggt að hvað sem fellst í ákvörðunin mun það hafa víðtækar afleiðingar einhvern daginn í framtíðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Upprétti
Mjög fín grein hjá þér. Synd að einungis fáein hundruð skuli lesa hana hérna. Mig langar að skora á þig að stytta hana í 5000 slög og senda hana inn til Morgunblaðsins til birtingar.
Kveðja
Júlíus Sigurþórsson, 2.1.2008 kl. 22:18
Hefurðu eitthvað hugsað út í hvað allt þetta dót kostar sem þú ert að nefna? Yfirstjórn, CCC og herlið? Þetta er bilaður peningur sem fer í hermál ef stofna ætti íslenskan her, peningur sem hægt væri að nota í eitthvað gáfulegt.
Kári Gautason, 16.1.2008 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.