3.11.2008 | 11:01
Spilling var það heillin
Frændi minn er Framsóknarmaður í húð og hár. Þegar bönkum landsins var skipt á milli "hollvina" Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins á sínum tíma, spurði ég hann af hverju hann styddi svona flokk. Hann rak upp þennan sér Íslenska hrokahlátur, þessi lági hlátur og augngot niður til greyið einfeldningsins, hlátur sem kemur alltaf úr Íslendingum sem eru í vörn. Hann svaraði því síðan að "án Framsóknarflokksins þá byggju Íslendingar ennþá í torfkofum". Líklega einhver áróður sem flokksmenn æfa sig í að kalla upp á flokksþingi.
Annar fjölskyldumeðlimur er Davíðs-sinnaður Sjálfsstæðismaður og hefur þulið uppi endalausri möntru um illsku Bónusar og heiðarleika Davíðs Oddsonar síðustu árin. Ekkert sem Davíð gerir er rangt. Þegar ég hef bent á að Davíð hafi leyst allar hömlur á Bönkunum og verið Forsætisráðherra þegar allt góssið var einkavinavætt. Ég bendi einnig á að Kolkrabbinn og aðrir peningafurstar hafi ekkert verið betri eða verri en Bónus, en þeir hafi hins vegar stutt Flokkinn. Augun í þessum Sjálfsstæðismanni verða fjarlæg um leið og einhver rök eru sett fram og augljós að hann hefur ekki heyrt neitt.
Árni Johnsen var þingmaður einu sinni og stal fjármunum ríkisins. Fjármunum sem Íslendingar höfðu borgað til ríkisins í sköttum. Þó hann sé örugglega ekki fyrsti né síðasti sem hefur nýtt sér ríkið til einkaneyslu, þá var hegðun hans svo óforskömmuð að hann var dæmdur og fangelsaður fyrir viðvikið. Líklega fyrsta skiptið sem slíkt hefur gerst í Íslenskri stjórnmálasögu. Þegar hann hafði setið af sér var hann náðaður og Kjósendur á Suðurlandi kusu hann aftur sem þingmann sinn. Hann situr núna á þingi.
Forseti lýðveldisins er mikill vinur ríkustu Íslendingana. Ísland er nú það vestræna ríki sem hefur mesta muninn á fátækum og ríkum. Forsetinn sem var vinstrimaður flýgur um í einkaþotum með stéttinni sem setti Íslendingar á hausinn.
Ég gæti haldið endalaust áfram, en ég tel þessi dæmi hér fram til að benda á hið augljósa, að Íslendingar eru þolinmóðasta fólk veraldar þegar það kemur að spillingu valdamanna. Við "höldum með" stjórnmálaflokkum sama hvað þeir í raun gera eða gera ekki. Við kjósum okkur valdamenn sem eru "skemmtilegir" sama hve skemmdir einstaklingar þetta eru. Okkur finnst það lúðalegt ef einhver ætlar að breyta einhverju. Eina leiðin t.d. til að stofna stjórnmálaflokk á Íslandi og fá fólk kjörið er að fá gamlan pólitíkus til að "skilja við" flokkinn sinn. Að stofna nýjan flokk með nýju fólki er vonlaust. Við horfum á valdastéttina fara með fjármuni okkar eins og mattador spil og gerum ekkert.
Það þarf eitthvað meiriháttar til að breyta þessari hjarð-hegðun.
Það var nefnilega spilling sem kom Íslendingum í þetta ástand. Það var spilling þegar bankarnir voru einkavinavæddir. Það var spilling þegar gamlir stjórnmálamenn voru settir í eftirlaun í Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Það er spilling þegar stjórnmálamenn ferðast um heiminn í einkaflugvélum stórkaupmanna. Það er spilling þegar stjórnmálamenn ganga mála peningamanna í embætti sínu. Það er spilling þegar Íslenska ríkisstjórnin lýgur að nágrannalöndum okkar um stöðu bankana og hæfileika Íslenskra stórkaupmanna.
Þeir sem stóðu í þessari spillingu í þetta skiptið voru Sjálfsstæðisflokkurinn 22,3 prósent., Framsókn 7,8 prósent og Samfylkingin 37 prósent. Sem sagt, að þrátt fyrir þetta þá eru flokkarnir sem eru ábyrgir með 67,1 prósent atkvæða!
Jú það er skiljanlegt að fólk vilji ekki Nýnasistaflokk eða Stalínista sem valdaflokka landsins, en af hverju ekki eitthvað alveg nýtt?
Minnir mig á lokaatriðið í Títanik. Skipið sekkur og hljómsveitin heldur áfram að spila.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.