6.1.2009 | 12:40
Völuspá (söguspá) fyrir Ísland
Næstu mánuðir og ár verða örlagaríkir fyrir Íslensku þjóðina og næstu vikur munu skipta sköpum um það hver þau örlög verða.
Það eru til margir spámenn og falsspámenn í heiminum, allir með sínar spáaðverðir. Sumir rýna í bolla, aðrir í kristalskúlu. Ég hef sjálfur fengið norn til að spá fyrir mig í spil og sígaunakerlingu til að lesa í lófa. Hvorug hefur haft rétt fyrir sér... Allavegana enn sem komið er. Nornin sá ekkert nema peninga og sígauninn sá að ég myndi hafa þægilegt líf.
Þegar það kemur að ríkisstjórnmálum þá eru bækur besta tólið til að spá í framtíðina, nánar tiltekið sögubækur. Ég ætla hér að neðan að reyna að rýna í þær og spá fyrir um hvað gæti gerst á Íslandi. En fyrst eru það núverandi aðstæður:
- Lítill hópur viðskiptamanna með stuðningi valdhafa landsins skuldsettu þjóðina í þrot til eigin ávinnings.
- Landið er í raun gjaldþrota og mikils skorts og gríðarlegs atvinnuleysis mun gæta á næstunni. Landið getur líklega brauðfætt sjálft um 40-60.000 manns.
- Spilling er svo inngróin í stjórnmál landsins að stjórnmálamenn og landsmenn taka því sem sjálfssögðum hlut.
- Allt opinbert eftirlit og stjórnun brást vegna vanhæfni og spillingar.
- Allt vald ríkisins hefur safnast á hendur einstaklinga í ríkisstjórninni á meðan þingið hefur nánast misst allt vald sitt og í hæstarétti sitja peð stjórnvalda.
- Enginn hefur tekið ábyrgð á ástandinu og valdhafar reyna að rugla málið fyrir almenningi meðal annars með umræðu um ESB.
- Mótmæli gegn valdhöfum stækka og meiri heiftar gætir meðal mótmælenda.
Þetta er ekkert nýtt í sögunni, svipaðir hlutir hafa gerst áður annarsstaðar.
Enska borgarastríðið 1640-1660
Enska þingið var mjög valdalítið en Karl 1sti konungur vildi meiri völd. Allt frá valdatöku árið 1625 safnaði hann meiri og meiri völdum á sínar hendur. Hann bæði setti þingið af eða tók ekki mark á því allt fram að 1640 þegar þingið lýsti yfir eigin sjálfsstæði. Afleiðingin var 3 borgarastríð sem luku ekki í raun fyrr en 1661 með sigri þingsins og endurreisn krúnunnar.
Langtímaafleiðingar: Stjórnarfarslega varð þetta Bretlandi til góða til lengri tíma séð en lýðræðislegt vald og réttindi almennings jókst og útkoman var það þingbundna konungsríki sem enn er til staðar.
Franska byltingin 17891799
Lúðvík 15di konungur kom Frönsku þjóðinni í þrot með þátttöku í stríðum víðsvegar um heim, m.a. með í Bandaríska Frelsisstríðinu. Lúðvík 16di tók því við gjaldþrota ríkið árið 1774. Öll byrgði þessa gjaldþrots var sett á skattlagningu almennra borgara á meðan aðallinn og kirkjan þurftu ekki að greiða skatt. Franska þingið mismunaði einnig á milli þessara stétta, en hver stétt hafði eitt atkvæði án þess að taka tillit til fjölda einstaklinga í hverri stétt.
Ofan á þetta bættist síðan litla ísöld sem varð til með samvirkni El Ninjo veðurbrigðisins og eldgoss í Lakagígum á Íslandi. Almenningur þurfti því að borga skatt fyrir lán sem hann hafði ekki tekið og svalt vegna umhverfisáhrifa á meðan valdastéttin lifði hátt og tók enga ábyrgð á skuldsetningunni eða ástandinu. Á endann braust heiftin vegna þessa óréttlætis út í einni blóðugustu byltingu sögunar.
Langtímaafleiðingar: Á næstu áratugum á eftir fór Frakkland frá stjórnleysi í lýðræði til einræðis Napóleons. Stríðið sem hófst innan ríkisins breiddist út og á endanum stóð öll Evrópa í logum. Byltingin var að lokum þess valdandi að Frakkland gerðist eitt lýðræðislegasta ríki heimsins og er enn.
Weimar Lýðveldið 1919 - 1933
Weimar Lýðveldið varð til eftir byltingu gegn Þýska Keisaranum og alræðisstjórn hans sem leitt hafði þjóðina í heimstyrjöld sem hún tapaði. Lýðveldið stóð á brauðfótum frá byrjun, bæði vegna hinnar gríðarlegu stríðsskuldar og upprisu öfgafullra stjórnmálaafla til hægri og vinstri eftir byltinguna gegn Keisaranum. Wall Street hrunið árið 1929 gekk frá lýðveldinu vegna Amerískra skulda ríkisins. Almenningur krafðist stöðugleika og snéri sér að sterkari stjórnmálum. Árið 1933 tók Nasistaflokkurinn alræðisvald yfir ríkinu.
Langtímaafleiðingar: Frá 1933 snérist efnahagur Þýskalands við og vald Nasistaflokksins jókst að sama skapi. Hernaðaruppbygging til að snúa við tapi Fyrra Stríðsins hófst nánast strax og Heimstyrjöldin Síðari hófst árið 1939. Þýskaland tók að lokum við sér og snérist til lýðræðis með efnahags- og stjórnmálaaðstoð Bandaríkjanna eftir Stríðið.
Rússneska Byltingin 1917
Nikolas 2ar Keisari var bæði alræðissinnaður og hafði ofsatrú á sjálfum sér. Eftir blóðuga uppreisn árið 1905 lofaði hann meira lýðræði og völdum til Rússneska þingsins, en gerði hið gagnstæða árið 1906 með Grunnlögum Ríkisins og aflagningu þingsins. Rússland líkt og Frakkland árið 1789 var mjög stéttaskipt þar sem valdastéttin naut allra forréttinda á meðan almenningur naut harðindanna. Fyrri heimstyrjöldin styrkti alræðistilburði Keisarans ennþá frekar en um leið leiddi til skorts og hungursneiðar almennings. Þolinmæðin var á enda og Rússneskur almenningur og hermenn nýkomnir frá austurvígstöðvunum snérust gegn valdhöfum. Byltingin tók mjög stuttan tíma og lauk með yfirtöku Kommúnistaflokksins.
Langtímaafleiðingar: Kommúnistaflokkurinn jafnaði stöðu almennings og Rússland byggðist upp í að verða annað valdamesta ríki heimsins. Lélegt lýðræði og spilling leiddi aftur til falls ríkisins árið 1989. Rússland er núna að taka við sér aftur undir enn einni alræðisstefnunni. Ekki er ólíklegt að sama hringrásin hefjist aftur.
Íslenska (...?) 2008 - (?)
Það eru án efa fleiri dæmi um samansafn valds, efnahagsörðuleika og spillingar og afleiðingu þess í sögunni, en ég læt hér við sitja. Það er þó hægt að draga nokkrar ályktanir frá þessum dæmum. Það er mikilvægt að hafa það í huga að Íslendingar eru ekkert öðruvísi en annað fólk.
- Órói í þjóðfélaginu mun aukast til muna á næstunni og ef almenningur sér ekki raunverulegar breytingar eiga sér stað, verndun fjármuna ríkisins og að menn séu látnir sæta ábyrgðar, mun heift almennings aukast.
- Ef ekkert er gert mun skapast enn frekari upplausn bæði í þjóðfélaginu og innan stjórnmálana.
- Ríkisstjórnin (hver sem hún er) mun þá örugglega reyna að herða tök sín á ástandinu og alræðisvaldið mun aukast. Frekari heift og upplausn kallar þar á frekari valdatöku.
- Ef frekari alræðistilburðir ríkisstjórnarinnar mistakast mun stjórn landsins brotnar algjörlega og öngþveiti skapast.
- Upp úr öngþveitinu mun annaðhvort rísa mun harðari alræðisstjórn með einsýna hugmyndafræði, eða frjálsara og ábyrgðafyllar lýðræði. Þeim mun meira sem öngþveitið er, þeim meiri líkur eru á hinu fyrra.
Skrefið til alræðis eða lýðræðis liggur núna hjá ríkisstjórninni. Næstu dagar og vikur skipta sköpum um það. ESB og málsókn gegn Bretum skipta þar í raun engu, enda mun það á engan hátt hafa raunveruleg áhrif á komandi vanda. Það sem getur hins vegar haft áhrif á þetta er stórfelldur útflutningur fólks, sérstaklega menntaðra og hæfra einstaklinga. Slíkur útflutningur mun gera efnahagslega viðreisn landsins mjög erfiða og hún mun frekar mælast í áratugum en árum. En útflutningur þeirra sem líklegastir eru til að mótmæla og kröfu um breytinga mun valda því að litlar sem engar breytingar verða í stjórnmálum lansins.
Ríkisstjórnin er ekki full af einstaklingum með illsku í hjarta, þvert á móti, þetta er fólk sem raunverulega trúir að það sé best til þess fallið að stjórna landinu í gegnum harðindin. Helsta vandamálið þeirra er að þessir einstaklingar eru fastir í hefð og hegðun Íslenska embættismannakerfisins.
Lausnirnar til að komast út úr þessu farsællega með lýðræðislega stefnu eru einfaldar og margsagðar:
Spilling: Ríkisstjórnin þarf að byrja á að hreinsa í kringum sig, segja upp þeim einstaklingum sem hafa of sterk tengsl og ráða hæfustu einstaklinga í hvert starf. Þetta þyrfti að gerast undir eins.
Það þarf að opna allar bækur stjórnmálaflokka og sýna hver gefur til þeirra. Banna á fyrirtækjum og félögum að gefa fé til stjórnmálaflokka.
Kjósa þarf einstaklinga á þing en ekki flokka.
Auðvalds-misnotkun: Sjá þarf til þess að yfirmenn fyrirtækja í eigu ríkisins (bankana) séu þar vegna hæfileika en ekki tengsla. Enginn yfirmaður banka sem kom honum í þrot ætti að fá að starfa aftur innan banka í eigu ríkisins. Sjálfsstæð erlend rannsókn á hruninu þarf að hefjast strax.
Stöðva þarf undir eins að þeir viðskiptamenn sem nýtt hafa sér lélegt lagaumhverfi landsins til að skuldseta fyrirtæki í botn, hirða fjármuni fyrirtækisins, setja það á hausinn, einungis til að kaupa það aftur skuldlaust.
Bæta þarf eftirlitsstofnanir og lagaumhverfi viðskipalífsins m.a. með því að banna mönnum sem eru stjórnarmenn fyrirtækja að stýra öðru fyrirtæki næstu 3 árin.
Lýðræði: Gera þarf þingið sjálfsstætt gagnvart Ríkisstjórninni og þar með aðskilja valdssvið landsins. Þetta er einungis hægt að gera með því að breyta stjórnarskránni og kjósa sér til þings og ríkisstjórnar. Tillaga og þingsamþykki núverandi stjórnar á nýrri stjórnarskrá, og síðan þjóðarkosning um hana og um leið nýja stjórn ætti endanlega að friðþýða almenning og koma þjóðinni á réttan kjöl með stefnu á lýðræðið.
Þetta er einungis spá, byggð á sögulestri. Hvort hún gengur upp verður hægt að dæma í framtíðinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.1.2009 kl. 11:19 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.