9.1.2009 | 15:52
Þjóð án öryggis
Með tilvísun í greinina hér að neðan þá er ég að velta því fyrir mér hvort ég hafi rangt fyrir mér varðandi það hve alvarlegt ástandið á eftir að verða? Hvort að ríkisstjórnin og almenningur hafi rétt fyrir sér með að þetta reddist?
Öryggistilfinning Íslendingar er mjög sterk, sterkari en annarstaðar sem ég þekki til. Þessi öryggistilfinning, sem veldur t.d. andúð Íslendinga á landsvörnum og hernaði hverskonar, og trúnni á að allt "reddist", má líklega reka til smæðar samfélagsins. Við höfum vini og fjölskyldu nánægt okkur, og ef það bregst er samfélagið og ríkið til staðar til að styðja okkur í erfiðleikum. Okkur finnst það sjálfssagt að þessi öryggisnet séu til staðar í þessari stóru fjölskyldu sem heitir Ísland.
En eru þessi öryggisnet til staðar í dag?
Frá því Roosvelt kom fram með "Nýja Samninginn" (New Deal) sem viðbrögð við kreppunni árið 1933 er aðferðin orðin að stöðluðum viðbrögðum við kreppu: Ríkisstjórnin eyðir meiri fjármunum í starfsþung verkefni til að vinna gegn atvinnuleysi og koma neyslunni í gang aftur. Kenningin segir semsagt að við efnahagslega þenslu eigi ríkið að spara, og í efnahagslegri kreppu eigi það að eyða. Ef ríkið hefur ekki nóga fjármuni til handana þegar kreppan hefst, þá tekur ríkið lán sem borgað er upp á komandi þenslutíma.
Öll þau ríki sem standa frami fyrir núverandi heimskreppu hafa lýst yfir eða eru byrjuð á auknum útgjöldum ríkisins í starfsþung verkefni. Obama, verðandi Forseti Bandaríkjanna, hefur þegar lýst yfir eyðslupakka sem byrjað verður að nota þegar hann tekur við embættinu.
Íslenska ríkið, og sveitafélögin, nýttu illa tækifærin til að draga saman í þenslunni síðasta áratuginn. Helsta stefna ríkisins var að borga upp erlend lán og halda jöfnuði í ríkisrekstri. Þessi lánaborgun leiddi í raun til þess að gjaldeyrisforði Seðlabankans var nánast enginn þegar kreppan skall á, en það er annað mál. Sveitafélögin fóru út í gríðarlega þenslu, bæði sem afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar, að setja meiri byrgði á sveitafélögin, og einnig vegna hreinnar eyðslugleði bæjarstjórna. Bæjarfélög Höfuðborgarinnar voru líklega þeir sekustu í þessu sambandi. Smáralandið í Kópavogi, Tónlistarhöllin í miðborginni, þó ekki sé talað um kaup borgarinnar í tveim skúrum við Laugarveg vegna tískustríðs í byggingarlist eru fá dæmi um þetta.
Íslensku bankarnir, fyrir hönd "útrásarvíkingana", skuldsettu Íslensku þjóðina í botn, og þegar skuldirnar féllu á landsmenn var þjóðin í raun gjaldþrota.
Hagfræðingar benda á það að undirstaðan sé góð, fiskurinn, mannvitið og orkan gefi Íslendingum góða stöðu til að byggja á í viðreisn efnahagslífsins. En er þetta svo einfalt?
Kvótakerfið sem er við lýði þýðir í raun að allur óveiddur fiskur í efnahagslögsögu landsins er í eigu þeirra sem eiga kvótann. Þetta er staðreynd þar sem ekkert í stjórnarskránni segir að auðlindir landsins séu í eigu þjóðarinnar þrátt fyrir ákall margra. Fyrirtækin á Íslandi sem eiga kvótann eru í raun komin í þrot. Þeir sem eiga skuldirnar eiga því í raun kvótann. Þessir aðilar eru erlendir. Mér skilst að Deutche Bank sé helsti skuldunauturinn.
Nútíma veiðiaðferðir og vinnsla um borð í fiskiskipum þýðri síðan að allar vinnslutekjur af sjávarútveginum geta farið beint til útlanda án viðkomu á Íslandi. Eitthvað sem erlendur eigandi af íslensku fiskimiðunum myndi ekki hika við að gera. Enda er þetta aðferð sem Íslenskir kvótaeigendur hafa notað síðustu árin.
Mannvitið, eða mannauður landsins er mikill. Íslendingar eru mjög mikið menntaðir miðað við aðrar þjóðir og hafa sýnt fram á það að mannauðurinn getur skilað miklum hagnaði fyrir þjóðfélagið. Össur og CCP eru tvö dæmi um slíkt. Þetta er hins vegar fallvænt í alþjóðavæddum heimi. Ef lífsskilyrði og atvinnumöguleikar skerðast of mikið, í of langan tíma, mun landið missa mikilvægasta mannauðinn til útlanda. Það sem kallað er erlendis "brain drain". Langtímaspár geta því einungis byggt á mannauði ef lífsskilyrðin og atvinnumöguleikarnir eru bættir á annan hátt.
Orkan er því í raun eina auðlindin sem er til staðar, en þetta er einnig fallvænt. Áliðnaðurinn er í krögum eins og er, skuldir orkufyrirtækja hafa aukist til muna vegna falls krónunnar og iðnaðurinn í raun mjög valtur. Tíminn mun leiða í ljós hvernig honum vegnar.
Hvað er þá hægt að gera?
Ríkið hefur enga möguleika til að eyða meira í kreppunni, það eru í raun engir fjármunir til staðar í slíkar aðgerðir, og skuldirnar sem þegar sitja á gjaldþrota þjóðinni þýða að frekari lántaka er vonlaus, nema rétt til að halda grunn ríkisumsvifum gangandi. Málið er því ekki það að ríkið, og ríkisstjórnin vilji ekki gera neitt, heldur að þeir einfaldlega geta ekki gert neitt. Ríkið er um þessar mundir að draga saman seglin "hagræða" eins og það er kallað. Heilbrigðiskerfið er einn dýrasti, og þar af leiðandi fyrsti hluti ríkisins til að finna fyrir "hagræðingunni" og verið er að sameina spítala og hjúkrunarstofnanir. Þetta mun að sjálfssögðu þýða fækkun starfsfólks og fjölgun á atvinnuleysisskrám.
Öryggisnetið er því ekki fyrir hendi, og Íslendingar hafa í raun ekki ennþá byrjað að upplifað þann vanda sem skollinn er á. Hvaða áhrif það mun hafa á heimssýn Íslendinga, samfélag og stjórnmál landsins er óséð.
Ég vill ekki vera of svartsýnn, en ég vona að þessi komandi neyð muni leiða til betra stjórnarkerfis, og betra samfélags. Kannski það sé kominn tími til að reisa höfuðið uppúr sjónum og anda aðeins áður en haldið er til sunds aftur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.1.2009 kl. 15:08 | Facebook
Athugasemdir
Góð grein hjá þér homo erectus.
Jóhann G. Frímann, 17.1.2009 kl. 03:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.