11.11.2008 | 13:31
Einföld útskýring á vandamálinu
Segjum sem svo að Raggi Ráðherra gefi út tilskipun um að innbrot og rán skuli leyfileg.
Ronni Ræningi brýst inn til þín á meðan þú ert í vinnunni og rænir öllu sem þú átt.
Hann fer með góssið til Valla Veðmangara sem gefur honum pening í staðinn.
Ronni Ræningi fer síðan að kaupa fyrir peninginn hér og í útlöndum.
Valli Veðmangari flytur góssið til útlanda og setur upp búð til að selja það.
Ronni ræningi í græðgikasti fer að ræna íbúðir í Bretlandi líka.
En þar er þetta bannað og hann handtekinn af Brúnna Breta og hald lagt á góssið.
Þú ert alslaus og færð líklega ekki neitt til baka, ekki bara það heldur fer Brúnni Breti fram á að Íslenska ríkið borgi fyrir það sem rænt var í Bretlandi. Spurningin er því hver sé skúrkurinn?:
1. Er Ronni Ræningi skúrkur, þar sem ránið var löglegt?
2. Er Valli Veðmangari skúrkur, það er ekkert sem bannar verslun, og vörurnar voru löglega fengnar?
3. Er Brúnni Breti skúrkur fyrir að leifa ekki sömu ránin eins og Íslendingar gera?
4. Eða er Raggi Ráðherra skúrkurinn fyrir að gera innbrot og rán lögleg?
60-70% Íslendingar halda að allir nema Raggi Ráðherra séu skúrkar. Það verður seint hægt að ásaka Íslendinga um að stunda rökhyggju.
10.11.2008 | 12:34
Eru Íslendingar að þjást fyrir ábyrgðarleysi stjórnvalda?
Sú saga gengur um að IMF lánið og hjálp frá ESB byggist á því að ríkisstjórn Íslands segi af sér. Erlendir aðilar vilja ekki lána þeim sem komu Íslandi í þetta ástand peninga. Eftir endalausar lygar um stöðu bankana og Íslenska efnahagslífsins erlendis hafa stjórnmálamenn á Íslandi misst alla virðingu og trúverðugleika erlendis.
Íslenskir stjórnmálamenn eru hins vegar vanir að þegar upp kemst um spillingu og vanhæfni í starfi, þá þurfi þeir að bara að bíða í smá tíma á meðan fiskimynni Íslensku þjóðarinnar gengur sinn gang. Vandamálið er að erlendis eru menn vanir að stjórnmálamenn séu látnir sæta ábyrgð fyrir gerðir sínar.
Á meðan fær Íslenska þjóðin að þjást, en valdastéttinni er sama.
Eins og lítil stelpan sagði einu sinni "Svona er Ísland bara... "
3.11.2008 | 16:05
Þeir sem "meika það"
Hvernig á að "meika það" á Íslandi:
1. Gangtu í rétta flokkinn. Framsókn og Sjálfsstæðisflokkurinn eru besti.
2. Vertu fyndinn. Hæfileikar skipta engu máli, en ef þú getur fengið karlakór á Þorrablóti til að hlæja, þá er framtíð þinni borgið.
3. Hugsaðu stórt. Ekki taka 15 milljóna lán fyrir íbúð. Taktu 200 milljóna lán og eyddu í flottan lífsstíl og hlutabréfakaup. Ekki gleyma að setja nokkrar millur í flokkinn þinn.
4. Vertu vinur rétta fólksins. Þeir ráða þig í flott starf með feitum launum og stjarnfræðilegum starfslokasamningum. Þú ræður þau á móti í starf með feitum launum og stjarnfræðilegum starfslokasamningum.
5. Fáðu vin þinn til að kaupa verðlaust fyrirtæki á 1 milljón og selja þér á 50 milljónir. Þú selur honum helminginn af fyrirtækinu aftur á 75 milljónir og hinn helmingurinn fer á hlutafjármarkað þar sem þú selur hinn helminginn á aðrar 75 milljónir. Heldur síðan áfram að selja og kaupa sama fyrirtækið. Tekur lán út á hlut þinn í því (sjá númer 3.)
6. Komdu þér á þing og síðan í ríkisstjórn. Fullt af áhrifum, peningum, utanlandsferðum og veislum. Engin þörf á þekkingu og reynslu, og engin ábyrgð.
7. Fluttu alla peningana til útlanda en skildu eftir skuldirnar í Íslenskum fyrirtækjum. Sérstaklega erlendu skuldirnar.
8. Láttu líta út fyrir að þú sért ómissandi. Fáðu starf eða embætti með engar hæfniskröfur í gegnum flokkinn, og láttu flokksfélagana segja að þú getir ekki misst starfið það sem þú ert sá eini sem kannt það.
3.11.2008 | 15:42
Valdastéttin I
Nú er valdastéttin að koma ár sinni fyrir borð og koma sér og sínum vel útúr ástandinu sem þeir sjálfir sköpuðu.
Yfirmaður áhættustýringar Kaupþings tapaði 2 milljörðum (mest tekið á láni) og allar skuldir hreinsaðar við hann og mörg hundruð aðra bankastarfsmenn sem tóku lán frá 10-1000 milljónir til að kaupa hlutabréf, sumir fengu sér cruiser 100 jeppa, fjármögnuðu heimsreisur og lúxus heimili. Allar skuldir hreinsaðar upp svo þeir geti hafið störf í nýju ríkisbönkunum okkar. Rökin sem FME og ráðamenn færa fyrir þessu er að það sé ómögulegt að manna yfirmannastöður í nýju bönkunum nema þetta sé gert, því lögum samkvæmt mega gjaldþrota einstaklingar ekki starfa fyrir banka!!! "
3.11.2008 | 11:01
Spilling var það heillin
Frændi minn er Framsóknarmaður í húð og hár. Þegar bönkum landsins var skipt á milli "hollvina" Framsóknarflokksins og Sjálfsstæðisflokksins á sínum tíma, spurði ég hann af hverju hann styddi svona flokk. Hann rak upp þennan sér Íslenska hrokahlátur, þessi lági hlátur og augngot niður til greyið einfeldningsins, hlátur sem kemur alltaf úr Íslendingum sem eru í vörn. Hann svaraði því síðan að "án Framsóknarflokksins þá byggju Íslendingar ennþá í torfkofum". Líklega einhver áróður sem flokksmenn æfa sig í að kalla upp á flokksþingi.
Annar fjölskyldumeðlimur er Davíðs-sinnaður Sjálfsstæðismaður og hefur þulið uppi endalausri möntru um illsku Bónusar og heiðarleika Davíðs Oddsonar síðustu árin. Ekkert sem Davíð gerir er rangt. Þegar ég hef bent á að Davíð hafi leyst allar hömlur á Bönkunum og verið Forsætisráðherra þegar allt góssið var einkavinavætt. Ég bendi einnig á að Kolkrabbinn og aðrir peningafurstar hafi ekkert verið betri eða verri en Bónus, en þeir hafi hins vegar stutt Flokkinn. Augun í þessum Sjálfsstæðismanni verða fjarlæg um leið og einhver rök eru sett fram og augljós að hann hefur ekki heyrt neitt.
Árni Johnsen var þingmaður einu sinni og stal fjármunum ríkisins. Fjármunum sem Íslendingar höfðu borgað til ríkisins í sköttum. Þó hann sé örugglega ekki fyrsti né síðasti sem hefur nýtt sér ríkið til einkaneyslu, þá var hegðun hans svo óforskömmuð að hann var dæmdur og fangelsaður fyrir viðvikið. Líklega fyrsta skiptið sem slíkt hefur gerst í Íslenskri stjórnmálasögu. Þegar hann hafði setið af sér var hann náðaður og Kjósendur á Suðurlandi kusu hann aftur sem þingmann sinn. Hann situr núna á þingi.
Forseti lýðveldisins er mikill vinur ríkustu Íslendingana. Ísland er nú það vestræna ríki sem hefur mesta muninn á fátækum og ríkum. Forsetinn sem var vinstrimaður flýgur um í einkaþotum með stéttinni sem setti Íslendingar á hausinn.
Ég gæti haldið endalaust áfram, en ég tel þessi dæmi hér fram til að benda á hið augljósa, að Íslendingar eru þolinmóðasta fólk veraldar þegar það kemur að spillingu valdamanna. Við "höldum með" stjórnmálaflokkum sama hvað þeir í raun gera eða gera ekki. Við kjósum okkur valdamenn sem eru "skemmtilegir" sama hve skemmdir einstaklingar þetta eru. Okkur finnst það lúðalegt ef einhver ætlar að breyta einhverju. Eina leiðin t.d. til að stofna stjórnmálaflokk á Íslandi og fá fólk kjörið er að fá gamlan pólitíkus til að "skilja við" flokkinn sinn. Að stofna nýjan flokk með nýju fólki er vonlaust. Við horfum á valdastéttina fara með fjármuni okkar eins og mattador spil og gerum ekkert.
Það þarf eitthvað meiriháttar til að breyta þessari hjarð-hegðun.
Það var nefnilega spilling sem kom Íslendingum í þetta ástand. Það var spilling þegar bankarnir voru einkavinavæddir. Það var spilling þegar gamlir stjórnmálamenn voru settir í eftirlaun í Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Það er spilling þegar stjórnmálamenn ferðast um heiminn í einkaflugvélum stórkaupmanna. Það er spilling þegar stjórnmálamenn ganga mála peningamanna í embætti sínu. Það er spilling þegar Íslenska ríkisstjórnin lýgur að nágrannalöndum okkar um stöðu bankana og hæfileika Íslenskra stórkaupmanna.
Þeir sem stóðu í þessari spillingu í þetta skiptið voru Sjálfsstæðisflokkurinn 22,3 prósent., Framsókn 7,8 prósent og Samfylkingin 37 prósent. Sem sagt, að þrátt fyrir þetta þá eru flokkarnir sem eru ábyrgir með 67,1 prósent atkvæða!
Jú það er skiljanlegt að fólk vilji ekki Nýnasistaflokk eða Stalínista sem valdaflokka landsins, en af hverju ekki eitthvað alveg nýtt?
Minnir mig á lokaatriðið í Títanik. Skipið sekkur og hljómsveitin heldur áfram að spila.
31.10.2008 | 14:13
Ábyrgð! Ha ha ha ha!
Það er mikið talað um það fólks á milli að hinn eða þessi eigi að taka ábyrgð á ástandinu sem skapast hefur í efnahagslífi þjóðarinnar.
Þetta er í raun mjög fyndið viðhorf og ég er viss um að ráðherrar, viðskiptamenn, bankastjórar og seðlabankastjórar sitja í leðursófanum heima hjá sér með vindil og viskí og hlæja að þessu eins og ég.
Hver á að láta þessa ráðamenn þjóðarinnar sæta ábyrgð? Það er ekki og hefur aldrei verið aðhald að valdastétt landsins. Stjórnarskráin, sem var skrifuð af Konungi, setur allt vald ríkisins í hendurnar á sama fólkinu. Það er með meirihluta á Alþingi og situr í Ríkisstjórn. Það setur alla embættismenn ríkisins, þar með talið dómara. Heldur almenningur í raun og veru að þetta fólk fari að hegna sjálfum sér?
Nei, þau munu sitja og bíða þangað til Íslendingar eru búnir að gleyma þessu eins og vanalega. Næsti Bumbubani eða Tívolí radío verður búin að fylla höfuð landans fljótlega og allt verður fyrirgefið fyrir næstu kosningar.
Þetta hefur alltaf verið svona og verður alltaf svona á meðan við búum með sömu stjórnarskrána þar sem kjósendur kjósa einræðisherra á fjögurra ára fresti.
28.10.2008 | 18:14
Landflótti
Ég er hræddur um að það verði mikill landflótti í vetur og vor. Með um 50% skuldaaukningu heimilanna, 18% stýrivöxtum, 20% verðbólgu og miklu atvinnuleysi er ástandið vonlítið. Mig grunar að ungt og vel menntað fólk muni alvarlega fara að huga að flutningi. Þetta er fólkið sem landið þarf sérstaklega á að halda í framtíðar efnahagsuppbyggingu. Án þeirra verður þetta mjög erfitt. Ef of margir að þessum hópi flytja verður einnig erfitt að fá þau til baka. Spyrjið bara bæjarfélögin á landsbyggðinni.
Það eina sem getur haldið í þetta fólk og fengið þau til að snúa aftur er einhver meiriháttar breyting á stjórnskipan landsins. T.d. að stjórnmálamenn færu að axla ábyrgðir og segja af sér þegar þeir eru ekki vaxnir starfi sínu.
Að mínu mati er eini möguleikinn sá að breyta stjórnarskrá landsins, að kjósa sér til Alþingis og Ríkisstjórnar. Þar geta þeir haft eftirlit með hverjum öðrum og lögsótt þá sem brjóta siðgæðisreglur. Eins og er er allt vald á Íslandi í höndunum á ríkisstjórninni. Þess vegna er óheft spillingin við líði.
Ef þetta væri aðskilið í dag þá sæti Davíð Oddson ekki sem vanhæfur Seðlabankastjóri og ríkisstjórnin væri búin að segja af sér eða lýst óhæf af Alþingi og boðað væri til kosninga.
28.10.2008 | 13:15
Gordon Brown er vinur minn
Ég er í email samræðum við vin minn sem vill skella efnahagsskuldinni á Gordon Brown og Bresku þjóðina. Hann spyr í síðasta email
"Ertu orðinn aðeins upplýstari í dag
eða ertu enn á sömu skoðun
að þetta hafi verið rétt og eðlileg viðbrögð breta ?
Ef þú ert búinn að átta þig
þá er slóðin hérna til að mótmæla þessum yfirgangi og ólöglegu aðgerðum.
http://indefence.is/?pageid=289"
Ég svaraði þessu:
"Já, alltaf upplýstari.
Þessi viðbrögð voru rétt í stöðunni. Bretar gerðu þetta til að passa stöðuna hjá sér. Íslenska ríkisstjórnin sagði þeim fyrir nokkrum mánuðum að allt væri í himnalagi með bankana, og síðan fara bankarnir á hausinn og Íslenska ríkisstjórnin neita að taka ábyrgð og borga upp reikningana. Þeir lugu hreynt út að Bretum og eru síðan algjörlega ábyrgðarlausir. Ef ekkert hefði verið gert af Bresku stjórninni og fólk misst innistæður sínar í Bretlandi eru líkur á að almenningur hefði farið að taka peningana sína út úr Breskum Bönkum og senda þá til Írlands t.d. Þetta hefði síðan getað gert Breska banka gjaldþrota.
Það eru allir í Íslensku stétt ráðamanna að reyna að rugla almenning í rýminu. Fjölmiðlarnir eru annaðhvort í eigu auðmanna eða undir stjórn ríkisstjórnarinnar, þeirra sem eru ábyrgir fyrir ástandinu. Það er því ekki hægt að taka nokkurt mark á þeim. Ráðamenn og viðskiptamenn benda annaðhvort á hvern annan, ástandið erlendis eða reyna að gera Breta ábyrga fyrir öllu. þetta hefði allt verið í lagi ef við hefðum getað tekið meira lán. Og enginn. Já nákvæmlega ekki einn einasti einstaklingur hefur sagt af sér. Það er frekar að það beri meira á flokksfíflunum sem hrópi "Nú er tíminn til að standa fyrir aftan ríkisstjórnina!"
Klikkun!
Hér eru staðreyndir málsins:
1. Ísland hefur farið verr útúr þessu en aðrar þjóðir, það er alþjóðakreppa í gangi, en ástandið á Íslandi er mun verra en það.
2. Buisness is buisiness. Viðskiptamenn reyna allt til að græða peninga, siðferði kemur ekki inn í myndina. Þetta er raunveruleiki kapítalismans. Það er aftur á móti hlutverk hins opinbera að gæta þess að viðskipti séu lögleg, siðleg og hafi ekki neikvæð áhrif á efnahagslífið. Það er gert í gegnum lög, reglur og eftirlitsstofnanir.
3. Viðskiptahættir útrásarvíkinga voru siðlausir og hefði átt að stoppa fyrir löngu. Ríkisstjórnir síðustu ára hafa hins vegar frekar létt á eftirliti. Átæðan er tengsl viðskiptalífsins og stjórnmála á Íslandi.
4. Samband stjórnmála og viðskiptalífs er siðlaug og algjör. Enginn veit hver gefur hvað mikið í stjórnmálaflokka og enginn veit hve mikið forseti, ráðherrar og þingmenn fá í einkaþotuferðalögum, kokteilboðum og öðru frá viðskiptamönnunum sem þeir áttu að hafa eftirlit með.
5. Ríkisstjórnin seldi bankana tengdum viðskiptamönnum fyrir lítið. Viðskiptamenn sem fóru síðan með bankana eins og eigin sparibauk.
6. Það er ekkert aðhald of eftirlit með stjórnálamönnum. Allt vald ríkisins er í höndum ríkisstjórnarinnar. Þeir hafa framkvæmdarvaldið, þeir hafa löggjafarvaldið í gegnum það að vera í meirihluta á þingi, og þeir eru með dómsvaldið með því að skipa alla dómara landsins úr eigin röðum.
7. Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit, Seðlabankinn átti að hafa eftirlit en þessar stofnanir voru og eru fullar af fyrrverandi stjórnálamönnum sem kunna ekki starf sitt og eru verndaðir af ríkisstjórninni sem setti þá í embættin.
8. Kerfið brást. Í einu orði er þetta ástand komið vegna spillingar. Of mikils valds fárra manna sem kunna ekki að fara með það. Of mikilla tengsla opinberra stofnana, viðskiptamanna, þingmanna og ráðherra.
9. Enginn, hvorki stjórnmálamenn, opinberir starfsmenn né útrásarvíkingar taka ábyrgð. Þeir hafa aldrei þurft þess á Íslandi, og munu aldrei gera það fyrr en Íslendingar í eitt skipti taka lögin í sínar hendur.
Ef þú villt vita betur af hverju Gordon Brown og Bretar eru orðnir óvinirnir á Íslandi skaltu lesa 1984 eftir George Orwell."
17.10.2008 | 09:32
Reykjavíkurborg sturtar 2000 milljónum í klósettið
Mér finnst sjálfum leiðinlegt þegar einhver bendir á mig og segir "ég sagði þér það!". En í þessu ástandi í dag þá langar mig að spyrja kæra Reykvíkinga hvað þeim finnist núna um það að
Ólafur F Magnússon fyrrverandi borgarstjóri keypti tvo skúra á Laugarveginum fyrir 580 milljónir króna.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri keypti brunarústir við Lækjatorg fyrir ca. 500 milljónir króna.
Kostnaðurinn við að endurbyggja þessar eignir í "upprunalegri mynd" verða líklega um 1000 milljónir króna.
Allt vegna þess að þessum mönnum finnst timbur og bárujárn fallegra en stein eða steinsteypa. 2000 milljónir fyrir smekk tveggja manna.
Jú að vísu stóð Sjálfsstæðisflokkurinn í borginni, og Framsókn, fyrir aftan þessi kaup líka.
Það væri gott að hafa 2000 milljónir í kassa borgarinnar í dag ekki satt?
13.10.2008 | 15:17
Hvernig ætlar þú að borga skuldirnar?
Mér skilst að Íslenska þjóðin skuldi 12 sinnum árs þjóðarframleiðslu landsins. Það tæki sem sagt 12 ár að borga skuldirnar ef allt sem kæmi inn færi í uppborgunina.
Ef við segjum hins vegar að þetta greiðist með sköttum, sem eru um 40%. Þá tæki það 30 ár að borga upp skuldirnar. Það er að segja ef við leggjum niður alla þjónustu ríkisins. Engin sjúkrahús, engin lögga, engir þingmenn.
Við erum semsagt að tala um að það muni taka kynslóðir að borga þetta upp.
Íslendingar skulda víst 100 milljónir á manninn! Veit ekki hvort þetta er rétt tala, en rosaleg ef rétt er.
Ef ég byggi heima þá væri ég byrjaður að pakka niður, ég hef engan áhuga á að börnin mín og barnabörn þurfi að borga skuldir sem Íslenska mafían kom þjóðinni í. Ég bý í útlöndum, en læt lítið fara fyrir mér þessa dagana, enda margir hér fúlir útí Íslendinga. Skiljanlega.
Ræddi við kunningja minn áðan og við komumst að því að kannski eina lausnin sé að við fáum Evrópusambandi til að einfaldlega taka yfir landið og skuldir þess. Skuldirnar myndu þá dreifast á hundruð milljónir í stað 300 þúsundir. Ísland yrði þá fyrsta alvöru Evrópulandið, stjórnað beint frá Brussel.
Sjálfsstæðisbaráttan mistókst. Sjálfsstæðisflokknum tókst að fokka því upp.