8.10.2008 | 09:18
Einangrunarstefna Flokksins
Einn grundvöllur yfirtöku ríkisins á Íslensku bönkunum er að þeir skeri á alla viðskiptastarfsemi erlendis. Þetta er stefna sem sprottin er úr skoðunum lítils arms Sjálfsstæðisflokksins. Þessi armur er sá hópur sem stendur t.d. á móti inngöngu Íslands í ESB og er um leið venjulega últra frjálslyndur, á móti ríkisafskiptum.
Í hita leiksins virðast fáir geta litið á þetta með köldu höfði og langtímasjónarmiði. Hve heillavænlegt er það að snúa alþjóðavæðingunni við og setja á bankalega einangrunarstefnu?
Mestu viðskipti Íslensku bankana eru erlendis, enda er Íslenski bankamarkaðurinn mjög lítill. Þetta hefur vissulega góðar og slæmar hliðar. Ein sú versta er þegar áhættufjárfestar taka lán í öðrum löndum á lágum kjörum og setja í Íslenska bankareikninga á ofurvöxtum, sem haldið er uppi af Seðlabankanum. En það er ekki allt slæmt í þessari alþjóðavæðingu. Þetta gefur Íslenskur fyrirtækjum einnig auðveldari leið á erlenda markaði, og hér á það við um bæði þjónustu og framleiðslufyrirtæki. Einangrunarstefnan sem sett hefur verið fram mun gera að engu alla þá vinnu sem farið hefur verið í við útrás bankana, og eyðileggur alla möguleika á þessu í framtíðinni.
Það sem verður að hafa í huga þessa dagana er að þetta er skammtíma vandi. Bankastarfsemi mun taka við sér aftur og efnahagurinn snúast við. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem kreppa hefur skollið á, og ekki í fyrsta skiptið sem ríkið hefur þurft að grípa inní markaðinn.
Á áttunda áratugnum gripu Bandarísk stjórnvöld inní fjármálakerfið sem hrundi með fjárfestingum í hlutabréfum. Þessi hlutabréf seldu stjórnvöld seinna með miklum hagnaði þegar markaðurinn tók við sér aftur. Með einangrunarstefnu sinni hafa Íslensk stjórnvöld í raun komið í veg fyrir að ríkið geti hagnast á þessu ástandi til langs tíma litið. Ólíkt öðrum ríkjum munu Íslendingar þurfa að standa undir ofurskuldum í framtíðinni án nokkurra möguleika á að koma sér út úr vandanum. Allt út af óupplýstrar sjálfsstæðishugmynda fárra einstaklinga innan Sjálfsstæðisflokksins. Manna sem sköpuðu vandamálið upphaflega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.